Fimm ættliðir í beinan kvenlegg

Eva María Patreksdóttir sem fæddist 20. mars kúrir í fanginu …
Eva María Patreksdóttir sem fæddist 20. mars kúrir í fanginu á móður sinni, Köru Lind Sigþórsdóttur, Inga María Brynjarsdóttir, Gunnhildur Ottósdóttir, langamman, er lengst til hægri og langalangamman Rannveig Jónsdóttir horfir undurblítt á fimmta ættliðinn.

„Þetta er lífið. Við fjölskyldan erum í skýjunum,“ segir Inga María Brynjarsdóttir nýbökuð amma en fimmti ættliður í beinan kvenlegg fæddist í fjölskyldunni í mars. Hópurinn er fríður og föngulegur eins og sést glögglega á myndinni.

Móðirin, Kara Lind Sigþórsdóttir, er nýorðin 18 ára og hún er fyrsta barn móður sinnar sem eignaðist hana þegar hún var sjálf 19 ára. Inga María er því ekki orðin fertug. 

„Þetta er æðisleg tilfinning. Þetta er öðruvísi en að vera mamma því þetta er ekki eins mikil ábyrgð og maður getur bara rétt hana aftur til mömmu sinnar ef hún fer að gráta,“ segir Inga María hress í bragði.  

Hún segir litlu ömmustúlkuna dafna mjög vel og allt gangi eins og í sögu. 

Þær allar fimm reyna að hittast sem oftast og hafa náð því tvisvar eftir að Eva María kom í heiminn. Inga María bendir á að þær eigi því láni að fagna að vera allar með tölu fílhraustar og í fullu fjöri.  

Eva María Patreksdóttir sem fæddist 20. mars kúrir í fanginu á móður sinni, Köru Lind Sigþórsdóttur, amma barnsins, Inga María Brynjarsdóttir, er við hlið hennar, þá langamman Gunnhildur Ottósdóttir og langalangamman Rannveig Jónsdóttir sem horfir undurblítt á fimmta ættliðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert