Rök fyrir hækkun skatts ekki hrakin

Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Ómar

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að rökin sem sett voru fram vegna hækkunar virðisaukaskatts ferðaþjónustunnar ekki hafa verið hrakin.

Rökin sem um ræðir eru að stemma stigu við gengisstyrkingu, einfalda skattkerfið og að afla tekna.

„Ég hef ekkert séð síðan við ákváðum þetta að þessi rök hafi veikst neitt, vegna þess að gengið er að styrkjast nánast dag frá degi. Það hefur áhrif á allar atvinnugreinar, ekki bara ferðaþjónustuna,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Komugjöld um sex þúsund krónur

Fjárlaganefnd Alþingis vill að skoðað verði hvort hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna verði frestað og í stað þess hugsanlega tekin upp komugjöld.

Benedikt segir að þessar hugmyndir nefndarinnar hafi ekki komið sér á óvart. „Ég hef heyrt hvað verið er að tala um í samfélaginu og þau gera það líka. Þau benda á þetta og það er sjálfsagt að menn skoði þetta en það einfaldast þá ekki skattkerfið við þetta,“ segir hann og bendir á að komugjöld þyrftu að vera um sex þúsund krónur til að ná sömu markmiðum.

„Við vitum að þau þyrftu að vera mjög há. Þau leggjast á alla flugmiða  og hugsanlega líka á innanlandsflug til að gæta jafnræðis. Þetta yrði að skoða miklu betur heldur en þarna er sett fram.“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Þarf að loka dæminu

Fjallað verður um málið á þinginu og segir Benedikt að þar verði málið greint betur. Spurður hvort meirihluti sé á þinginu fyrir hækkun virðisaukaskattsins segir hann að loka þurfi dæminu. „Þau segja það sem eru í meirihlutanum og vilja að þetta sé skoðað betur. Mér finnst það réttmæt og sanngjörn ábending.“

Hann tekur jafnframt undir ummæli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra, í sjónvarpsþættinum Silfrið á Rúv, um að ekki megi flana að neinu varðandi það að setja á komugjöld.

Benedikt segist mjög ánægður með að meirihluti fjárlaganefndar styðji fjármálaáætlunina. „Hún hefur komið með fjölmargar ábendingar sem er mjög gagnlegt fyrir alla. Hugsunin með þessu er að þingið fari gagnrýnum augum yfir áætlunina og komi með sínar áherslur.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert