Sýklalyfjaónæmi mun líklega aukast

Talið er að sýklalyfjaónæmi muni aukast hér á landi meðal …
Talið er að sýklalyfjaónæmi muni aukast hér á landi meðal annars vegna mikillar notkunar sýklalyfja hjá mönnum hér á landi. AFP

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dauðsföllum af völdum fjölónæmra baktería fer fjölgandi. Áætlað er að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um 700.000 dauðsföllum í heiminum á hverju ári og að þeim fjölgi í allt að 10 milljónir á ári árið 2050 verði ekkert að gert. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

„Þar sem sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur á undanförnum árum verið umtalsvert minna vandamál heldur en í nálægum löndum er mikilvægt að hér verði mörkuð opinber stefna um aðgerðir til að stemma stigu við frekari útbreiðslu.“ Þetta kemur fram í skýrslunni.

Talið er að sýklalyfjaónæmi muni aukast hér á landi meðal annars vegna mikillar notkunar sýklalyfja hjá mönnum hér á landi. 

Fjölmargir þættir, bæði þekktir og óþekktir, geta stuðlað að útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Helstu þekktu áhættuþættirnir eru: Dreifing vegna óskynsamlegrar notkunar sýklalyfja hjá mönnum og dýrum, dreifing með íslenskum og erlendum ferðamönnum, dreifing með matvælum, dreifing milli manna og dýra og dreifing frá umhverfi.

í skýrslunni kemur fram að fleiri rannsóknir þurfi á þessu sviði meðal annars á mögulegri dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería úr umhverfinu t.d. úr jarðvegi yfir í menn.

Einnig hefur sambýli manna og gæludýra aukist. „Hér á landi sem og erlendis er almennt lítið vitað um sýklalyfjaónæmar bakteríur í gæludýrum og ekki fylgst með sýklalyfjanotkun hjá þeim,“ segir í skýrslunni.   

Það þarf að fylgjast vel með sýklalyfjanotkun hjá búfé.
Það þarf að fylgjast vel með sýklalyfjanotkun hjá búfé. mbl.is/Styrmir Kári

Sýklalyfjaónæmar bakteríur berast með ferðamönnum

Það má áætla að sýklalyfjaónæmar bakteríur geti borist til landsins með erlendum sem og íslenskum ferðamönnum en ekki er vitað hversu mikil áhættan er.

„Með auknum fjölda ferðamanna hingað til lands og miklum ferðalögum Íslendinga erlendis má fullvíst telja að þessi áhætta fari vaxandi á næstu árum. Í ljósi þessarar vaxandi áhættu hefur sóttvarnalæknir farið þess á leit við Samtök íslenskra sveitarfélaga að þau sjái til þess að hreinlætisaðstaða fyrir ferðamenn sé í viðunandi horfi. Engin formleg viðbrögð hafa hins vegar borist við þeirri málaleita.“ Þetta kemur fram í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar telja jafnframt að hið opinbera  verði að leggja kvaðir á sveitarfélög um að bæta úr hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn. 

Neysla matvæla

Almennt er talið að lítil hætta sé á að ónæmar bakteríur berist í fólk með neyslu búfjárafurða þar sem þær eru að jafnaði hitameðhöndlaðar. „Á Íslandi hefur verið gerð sú krafa að ferskt innflutt kjöt þurfi að hafa verið fryst í a.m.k. fjórar vikur en frysting minnkar magn kampýlóbakters í matvælunum en hefur lítil áhrif á aðrar bakteríur. Lögmæti þessarar kröfu Íslendinga hefur verið dregið í efa og er nú tekist á um það fyrir dómstólum.“

Brýnt er að salernisaðstaða fyrir ferðamenn verði bætt, að mati …
Brýnt er að salernisaðstaða fyrir ferðamenn verði bætt, að mati skýrsluhöfunda. mbl.is/Ómar Óskarsson

10 tillögur  um aðgerðir

Í skýrslunni eru lagðar fram tíu tillögur um aðgerðir sem miða að því að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Þær eru: innleidd verði stefna um skynsamlega notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum, stjórnvöld á Íslandi marki sér opinbera stefnu um málefni sem tengjast ónæmi gegn sýklalyfjum og sníkjudýralyfju, árlega verði gefin út skýrsla um sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun hér á landi, styrkt verði eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í dýrum og í matvælaframleiðslu, gerð verði heildstæð endurskoðun á notkun sníkjudýralyfja hér á land, gerðar verði rannsóknir á tilvist sýklalyfjaónæmra baktería í umhverfi, auknar verði skimanir fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum á sjúkrastofnunum hjá skilgreindum áhættuhópum, unnið verði að því að minnka áhættu á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería með ferðamönnum.  

Í  starfshópnum sátu: Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem jafnframt var formaður, Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, Vala Friðriksdóttir deildarstjóri bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðisviðs Keldna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert