Skapa listaverk með augunum

Ljósmynd/Klettaskóli

Klettaskóli í Reykjavík hefur innleitt augnstýribúnað fyrir nemendur sem af einhverjum ástæðum tjá sig ekki með orðum. Fram kemur í fréttatilkynningu að tíu nemendur í skólanum séu nú að læra að stjórna tölvumús með augunum. Myndir sem þau hafa gert með þessum augnstýribúnaði hafa verið til sýnis á barnamenningarhátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur en sýningin ber yfirskriftina: Augun mín hafa svo margt að segja.

„Ég er mjög stolt og ánægð að sjá myndverk eftir nemendur mína prýða veggi ráðhússins á Barnamenningarhátíðinni. Nemendurnir eru á öllum aldursstigum grunnskólans og hafa mismunandi færni en eiga það sameiginlegt að hafa möguleika á að stjórna tölvumús með augunum," er haft eftir Hönnu Rún Eiríksdóttur, kennara og ráðgjafa í Klettaskóla.

Búnaðurinn kemur fra sænska tæknifyrirtækinu Tobii en umboðs- og þjónustuaðili þess hér á landi er Öryggismiðstöðin og hefur fyrirtækið aðstoðað Klettaskóla við innleiðingu búnaðarins. Hanna Rún segir ennfremur að í vetur hafi nemendur unnið myndverk með forriti sem tengt sé augnstýringunni. „Þessi augnstýringarbúnaður er mögnuð tækni sem gefur börnum með sérþarfir aukin tækifæri til að tjá sig.“

Ljósmyndir/Klettaskóli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert