Lóguðu ketti ferðamanns

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglumenn á Höfn fengu í síðustu viku ábendingu um svissneska konu sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar í síðustu viku. Á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að konan hafi verið á húsbíl og uppi grunur um að hún væri með kött sem væri ólöglega fluttur inn í landið.

Húsbíllinn fannst við Almannaskarð og var konan ein á ferð með einn kött. Að beiðni héraðsdýralæknis var kötturinn tekinn og færður dýralækni sem sá um að aflífa dýrið og ráðstafa hræinu.

Þá var karlmaður handtekinn skömmu eftir hádegi síðastliðinn miðvikudag eftir að hafa ekið á þrjár bifreiðar á Selfossi. Þegar til hans náðist skömmu síðar reyndist hann svo ölvaður að lögreglumenn urðu að bregða á það ráð að flytja hann í hjólastól inn í fangageymslu þar sem hann var vistaður til næsta dags en þá fyrst var hægt að yfirheyra hann.

Maðurinn viðurkenndi að hafa ekið á bifreiðarnar þrjár en neitaði að hafa verið ölvaður þegar það gerðist. Vitni hafa gefið skýrslu og beðið er eftir niðurstöðu blóðrannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert