Hektarinn seldur á 2,5 milljónir í stað 20 milljóna

Sigurður Ingi Jóhannsson vill ræða söluna á Vífilsstaðalandinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson vill ræða söluna á Vífilsstaðalandinu. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur óskað eftir sérstakri umræðu við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra um söluna á Vífilsstaðalandi til Garðabæjar.

Sigurður Ingi vísar í frétt á vef mbl.is frá árinu 2002, þar sem greint er frá því að félagið Árakrar og Byggingarfélagið Arnarnes hefðu undirritað samning um kaup byggingarfyrirtækjanna á eignarlóðum undir 275 íbúðir í landi Arnarness í Garðabæ.

Fram kom í fréttinni að kaupverð lóðanna væri 455 milljónir króna.

Í færslu á Facebook segir Sigurður Ingi, að á þessum tíma hafi verð á hektara verið um 10 milljónir króna. Á núvirði sé það rúmlega 20 milljónir króna. 

„Nú gera þeir Engeyjarfrændur samning við Garðabæinn sinn um sölu á ca. 2,5 milljónir hektarann,“ skrifar Sigurður Ingi.

Hann segir enn fremur, að það sé órætt í þinginu hvort ekki væri skynsamlegt að halda eftir lóð undir nýtt þjóðarsjúkrahús. „Enn og aftur finnst fjármálaráðherra þingið bara vera fyrir – en ekki sjálfsagður vettvangur fyrir skoðanaskipti og grundvöll ákvarðanatöku,“ skrifar Sigurður Ingi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert