Fleira í lífinu en stjórnmál

Frumbyggjar í Bandaríkjunum mótmælaTrump og Dakota-olíuleiðslunni meðfriðsömum og táknrænum hætti …
Frumbyggjar í Bandaríkjunum mótmælaTrump og Dakota-olíuleiðslunni meðfriðsömum og táknrænum hætti með þvíað reisa tjöld í Washington. AFP

Um tvö hundruð málsmetandi stjórnmálamenn, fræðimenn og andlega þenkjandi friðar- og umhverfissinnar hvaðanæva munu flykkjast hingað til lands í vikunni til að ræða stóru málin – mannúð, umhyggju, mikilvægi andlegrar ástundunar og hvernig hver og einn getur átt þátt í að búa til betri heim.

The Spirit of Humanity Forum er alþjóðleg friðarráðstefna sem haldin er í þriðja sinn í ár, en Ísland er valið sem vettvangur vegna þess að það er talið eitt friðsælasta land í heimi. 

Doktor í stjórnmálafræði sem er ekki bara verðlaunaður sérfræðingur í friðargæslu heldur líka gjörningalistamaður. Erkibiskup Höfðaborgar í Suður-Afríku. Leiðtogi leiðangurs á vegum Sameinuðu þjóðanna til að útrýma efnavopnum í Sýrlandi. Stofnandi alþjóðlegra kvenna- og friðarsamtaka frá Pakistan. Frumkvöðull á sviði sólarorku á Indlandi. Og lengur mætti telja.
Þegar listinn yfir þátttakendur ráðstefnunnar Spirit of Humanity Forum sem á sér stað í Háskólabíó 27.-29. apríl næstkomandi er skoðaður blasir við áhugaverður fjöldi. Yfirskrift ráðstefnunnar er að ræða grunngildi á borð við kærleik, umhyggju, virðingu og samkennd og hvernig hafa megi þau að leiðarljósi við hvers kyns ákvarðanir í starfi jafnt sem einkalífi.

„Þetta er vettvangur fyrir fólk sem er að vinna að friðarmálum með ýmsum hætti úti um allan heim, hvort sem það eru prófessorar, fólk frá Sameinuðu þjóðunum, fólk sem vinnur með menntun barna eða aðrir. Kjarninn er ekki að bera á borð háfleygar kenningar um hvernig búa megi til frið í heiminum, heldur að líta inn á við og skoða hvernig við getum öll tekið þátt í því dagsdaglega,“ segir Jóhanna Vilhjálmsdóttir, sem stýrir ráðstefnunni í ár. „Hingað til hefur tengingin við Reykjavík skipt skipuleggjendur og þátttakendur miklu máli, út af þeirri yfirlýstu stefnu að Reykjavík verði höfuðborg friðar í heiminum, og að Ísland sé talið eitt friðsælasta land í heimi. Þrátt fyrir að fólk úti um allan heim komi að þessu eru ræturnar á Íslandi.“

Sunnudagsblaðið náði tali af tveimur þátttakendum ráðstefnunnar úr afar ólíkum áttum. Annar þeirra vann að Belfast-sáttmálanum á sínum tíma, friðarsamkomulaginu um Norður-Írland frá árinu 1999, og þjónar sem þingmaður í efri deild breska þingsins, The House of Lords. Hinn er prófessor af norður-amerískum frumbyggjaættum og ötull andstæðingur Dakota Access-olíuleiðslunnar. Þrátt fyrir að vera úr ólíkum áttum eiga þeir sameiginlegt að hika ekki við að tala á háfleygum nótum, hvort sem það er um leiðir til að breyta heiminum eða virðingu fyrir „mannlegu fjölskyldu okkar“. Sá síðarnefndi ætlar að nýta dvölina hér á landi til að sannreyna kenningu sína um Íslendinga – nefnilega að þeir séu ein hamingjusamasta þjóð heims vegna návígis við náttúruöflin og virðingar sem ríkir fyrir landslaginu.

Til að ná árangri í frið-armálum þyrfti maðurinnað bera mun …
Til að ná árangri í frið-armálum þyrfti maðurinnað bera mun meiri virð-ingu fyrir nærumhverfisínu og hinum ómennskaheimi, segir Four Arrows. Ljósmynd/Beatrice Angela Jacobs

Samtenging og heimssýn frumbyggjans

„Það er áríðandi fyrir okkur sem nú lifum að muna eftir samböndum og samtengingu okkar, ekki bara hvers við annað heldur samband okkar við hinn ómennska heim [the nonhuman world],“ segir Four Arrows eða Fjórar Örvar, sem einnig gengur undir nafninu Don Jacobs, í samtali við sunnudagsblaðið, en hann er einn þeirra sem ávarpa ráðstefnuna. „Ef okkur tækist það ættum við mun auðveldara með að tengjast sterkari böndum við okkar eigin dýrategund og bera virðingu fyrir náunganum“. Hann lýsir þessu hugarfari sem heimssýn frumbyggjans [the indigenous worldview], heimssýn sem hefur fylgt manninum meirihluta sögunnar en sé nú á undanhaldi.

„Þegar við erum í óbyggðum upplifum við ekki einsemd. Við finnum fyrir skyldleika okkar við móður tungl, föður sól, bróður tré og skepnurnar í kringum okkur. Í óbyggðum finnum við mun betur fyrir þessari tengingu heldur en í fjölmennum stórborgum. Í dag eru einmanalegustu staðir jarðar þær borgir sem eru þéttbýlastar, vegna þess að við höfum misst tengslin við heildarmyndina. Ég held að ef við myndum tala um trén, vatnið og dýrin sem skyldmenni okkar væri mun erfiðara að gera það sem við gerum. En við sjáum hagkerfi heimsins sem tæki til að nýta jörðina mannsins vegna.“

Virðingu fyrir skepnunum í kringum okkur finnst blaðamanni freistandi að setja í samhengi við íslenska umræðu, þar sem veganisma hefur mikið borið á góma undanfarin misseri. „Ég styð veganisma að ýmsu leyti. Dóttir mín hefur verið vegan síðan hún var níu ára og veganismi getur verið mjög góð leið ef ákvörðunin á sér andlega hlið,“ segir Four Arrows. „Hinsvegar er kjötát á mörgum stöðum ómissandi hluti af tilverunni, til dæmis þar sem aðstæður krefjast þess að menn borði selkjöt eða hvalkjöt. Það mikilvæga er að bera sem allra mesta virðingu fyrir öllu sem við leggjum okkur til munns, hvort sem það eru dýr eða plöntur.“

Trump er hættulegur en nauðsynlegur

Eins og gefur að skilja hafði kjör Trumps mikil áhrif á Four Arrows og skoðanabræður hans, ekki síst þá sem stóðu með Standing Rock-ættbálknum í mótmælunum vegna Dakota Access-olíuleiðslunnar.

„Ég var við Standing Rock þegar Trump var kjörinn. Ég man eftir ungri konu, einni þeirra sem voru ekki af frumbyggjaættum við mótmælin, sem grét hástöfum, örvænti og spurði af hverju þetta væri eiginlega að gerast. Ég faðmaði hana og sagði „honey, welcome to our world“. Við höfum verið að kljást við nákvæmlega þetta í meira en tvö hundruð ár. Við höfum verið að kljást við þetta undir hinum ýmsu forsetum í gegnum tíðina,“ segir hann. Standing Rock hafi þannig verið birtingarmynd þess sem frumbyggjar hafi lengi þurft að þola í Norður-Ameríku, þar sem frumbyggjar hafi staðið vörð um vatnið, sem Four Arrows lýsir sem „lífinu og sjálfri móðurmjólkinni“, gegn ágengni ríkjandi heimssýnar. „Núna er það hinsvegar svo augljóst að mun fleiri opna augun. Trump er hættuleg en nauðsynleg vitundarvakning.“

Four Arrows talar um ríkisstjórn Trumps sem þjófræðisstjórn [kleptocracy] þar sem höfuð hverrar stofnunar er á móti viðkomandi stofnun. „Þetta er hópur fólks í hverri deild sem reynir að eyðileggja viðkomandi deild. Höfuð umhverfisstofnunar er á móti umhverfisvernd, höfuð menntamálaráðuneytisins er á móti menntun og svo framvegis. Einu gildin eru völd og peningar.“

Á ógæfutímum verða þjóðir hallari undir einræðisdrætti, segir Four Arrows, en hinsvegar sé aldrei um vont fólk að ræða, heldur afvegaleidd sjónarmið.

Vatnið fremst í fylkingu, ekki peninga

Four Arrows hefur fjallað mikið um heimssýn frumbyggjans í skrifum sínum og ekki síst hvernig megi innleiða þá sýn í menntun barna. „Fyrsta skrefið að því að hleypa þessari heimssýn að í okkar dagsdaglega lífi er að sleppa tökum á okkar mannmiðuðu heimssýn, að reyna að hætta sjá manninn sem nafla alheimsins,“ segir hann. „Það er mjög erfitt. En þangað til við getum séð umhverfið, trén, vatnið og loftið sem ættingja okkar og kennara verður erfitt að ná árangri. Ef okkur tekst með djúpstæðum og varanlegum hætti að tileinka okkur þessa sýn munum við strax bera mun meiri virðingu fyrir náunganum, hvort sem hann er af öðru litarhafti, trú eða stétt.“

Um er að ræða tvær leiðir til að sjá heiminn, eins og Four Arrows lýsir því. Ein heimssýn er sú sem ríkir í dag, sem sér manninn á toppi sköpunarverksins og einkennist af efnishyggju. Hin er sú sem hefur fylgt okkur í gegnum 99% af sögu mannsins. Það er heimssýn frumbyggjans, sem byrjaði að hörfa fyrir um átta þúsund árum, segir hann. „Þar er jafnvægi og samhljómur ríkjandi og virðing fyrir umhverfinu það sem var haft að leiðarljósi.“

Pólitíski vandinn við að ná áhrifum með þessari heimssýn sé hinsvegar að hún er svo margþætt. „Við höfum ekki þetta eina málefni til að hópast bak við eins og hin hliðin, það er peningana. Ég held að ef við ættum að sameinast undir einu flaggi, ef eitt málefni ætti að sameina okkur öll, myndi ég segja að vatnið væri fremst í fylkingu. Vatnið er andi, við erum gerð úr vatni, jörðin er gerð úr vatni, fiskarnir og fuglarnir þurfa vatnsins við. Ef við myndum berjast gegn einkavæðingu vatns í heiminum, ef við myndum standa vörð um vatnsból heimsins jafnt sem úthöfin, myndi það leiða af sér árangur á öllum öðrum sviðum.“

Lord Alderice ræðir sýn sína á írska friðarferlið.
Lord Alderice ræðir sýn sína á írska friðarferlið.

Þriðju heimsátökin hafin

„Við lifum á mjög erfiðum tímum fyrir mannkynið.“

Þannig hefst viðtal sunnudagsblaðsins við hinn breska Lord John Alderdice, sem einnig kemur til með að miðla reynslu sinni til viðstaddra í Háskólabíó. „Ég hef um nokkurt skeið verið þeirrar skoðunar að við séum þegar gengin í þriðja skeið heimsátaka [third global conflict] – ekki eins og heimsstyrjaldirnar tvær, en stríð á heimsvísu engu að síður.“ Á ráðstefnunni muni hann kanna eigin reynslu af hópsálfræði og mikilvægi hennar, mikilvægi þess að skilja átökin í eigin heimshluta og annars staðar og ræða alþjóðlega krísu nútímans. „Ég vonast til að læra með öðrum þátttakendum hvernig við getum kveikt ljós saman, frekar en að bölva bara myrkrinu.“

Sem einn af höfundum Belfast-sáttmálans eru sambönd milli ríkja og annarra stórra hópa Lord Alderdice hugleikin. Hann segir gildi ráðstefnunnar, ást, umhyggju, mannúð og fleiri, öll vera grunnþætti í slíkum samböndum, ekki síður en í samböndum manna á milli, við nærumhverfið og hið yfirskilvitlega.

„Ein helsta uppgötvunin í kringum írska friðarferlið var sú að við þurftum að takast á við langvinnar sögulegar erjur milli samfélaga okkar [disturbed historic relationships], ekki bara innan Norður-Írlands heldur líka við Bretland og hinn hluta Írlands. Að viðurkenna þetta var lykilatriði í því hversu vel ferlið gekk fyrir sig.“ Friðarferlið hafi þannig verið hannað til að takast á við þrenns konar sambönd. „Sambönd stórra hópa hafa verið leiðarstef í allri minni vinnu síðan, bæði í pólitík og í vinnu með samfélögum sem eiga í átökum.“

Fleira til í lífinu en stjórnmál

„Ef við náum einhverjum árangri í hugsun okkar um mannlegu fjölskyldu okkar og þær áskoranir sem við henni blasa á fundum ráðstefnunnar, og ef viðstaddir fara af henni innblásnir til að breyta til hins betra, þá getur hellingur gerst,“ segir Alderdice um þann árangur sem ráðstefna á borð við Spirit of Humanity Forum getur haft í för með sér. Þegar fólk hópist saman bak við sameiginlega hugsjón sé það vænlegt til árangurs, sagan sýni þess mýmörg dæmi.

„Hugsaðu bara hversu ólíklegt þér hefði þótt að nokkrir fátækir múslimar sem komu saman í Kaíró á fyrri hluta síðustu aldar hefðu getað haft eins stórtæk áhrif á heiminn og þeir gerðu. Þeir stofnuðu Múslimska bræðralagið. Maður gæti nefnt mörg slík dæmi.“

Lord Alderdice segir aðspurður að stjórnmál geti verið vænleg til árangurs en margt fleira þurfi að koma til. „Stjórnmál eru ein leið til að fást við sambönd milli samfélaga, en ekki eina leiðin til að breyta til hins betra. Þegar maður er að reyna að koma á breytingum eins og við höfum reynt að gera á Írlandi þarf vissulega pólitískar breytingar, en líka félagslegar, efnahagslegar og mikilvægast af öllu, þegar þörf er á að breyta viðhorfum fólks, menningarlega forystu og breytingar. Stjórnmál eru mikilvæg, en það er fleira til í lífinu en stjórnmál!“

Alderdice harmar það að geta ekki verið lengur á landinu en sem nemur ráðstefnunni, en þetta er ekki hans fyrsta heimsókn til landsins og að hans eigin sögn ekki sú síðasta.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert