Þurfa að stöðva umferð vegna sprenginga

Kort/Map.is

Vegna framkvæmda við mislæg vegamót Reykjanesbrautar í Hafnarfirði og Krýsuvíkurvegar þarf að takamarka umferðarhraða á framkvæmdasvæðinu og færa hann niður í 50 km/klst. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð um vinnusvæðið á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag. Umferð verður stöðvuð í 2-3 mínútur í senn af þessum sökum.

Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát og virða umferðarmerkingar við vinnusvæðið, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Færð og aðstæður

Það er að mestu greiðfært á Suður- og Vesturlandi en hálkublettir eru m.a. á Holtavörðuheiði, Svínadal og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir á heiðum og hálsum en greiðfært að mestu á láglendi. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði en vegna snjóflóðahættu verður ekki mokað fyrr en eftir helgi. 

Vegir á Norðurlandi eru óðum að verða auðir en þó eru hálkublettir m.a. á Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. 

Eins er að mestu greiðfært á Austurlandi en þó eru hálkublettir á Vopnafjarðarheiði, Möðrudalsöræfum og Fjarðaheiði. Greiðfært með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert