Sjúkraflutningamenn segja upp

Nánast allir sjúkraflutningamenn á Blönduósi hafa sagt upp störfum.
Nánast allir sjúkraflutningamenn á Blönduósi hafa sagt upp störfum. mbl.is/Jón Sigurðsson

Fimm af sjö sjúkraflutningamönnum á Heilbrigðisstofnun Norðurlands vestra á Blönduósi hafa sagt upp störfum. Ástæðan er meðal annars sú að ekki hafa verið bætt kjör og form á ráðningum þeirra þrátt fyrir bókun um slíkt í kjarasamningi frá desember 2015. Þeir eru í hlutastörfum. Alls eru um 100 sjúkraflutningamenn í hlutastarfi á landinu.

Um miðjan desember 2015 undirrituðu samninganefndir fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna samkomulag um breytingar á kjarasamningi sjúkraflutningamanna í hlutastarfi.

Fyrst var greint frá málinu í hádegisfréttum Bylgjunnar og á Vísi.

Í bókuninni er gert ráð fyrir að í júní 2016  lægi fyrir skýrsla um úttekt á störfum hlutastarfandi sjúkraflutningamanna og umfangi og eðli sjúkraflutninga. Síðar á árinu eða í desember 2016 átti að liggja fyrir áætlun um breytingarnar og kostnaðarmat. Þær áttu að taka gildi 1. janúar 2017. Engir samningar liggja fyrir.  

„Það hefur ekkert gerst og menn eru búnir að missa þolinmæðina,“ segir Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hann hefur engin svör fengið um hvernig þessari vinnu miðar og hefur meðal annars sent formanni samninganefndar ríkisins formlegt bréf þess efnis. 

„Ég yrði ekki hissa fyrst þessi bolti er byrjaður að rúlla að fleiri uppsagnir fylgi í kjölfarið,“ segir Stefán. 

Uppsagnarfresturinn 28 dagar

Uppsagnarfrestur sjúkraflutningamanna er 28 dagar. Ástæðan er sú að ríkið túlkar samninga við þessa starfsmenn sem eru í hlutastarfi sem tímavinnu. Stefán segir uppsagnarfrestinn vera eitt af því sem þeir eru ekki sáttir við.  

Stefán segir mikla óánægju vera á meðal sjúkraflutningamanna. Tvær uppsagnir hafa borist á síðustu mánuðum frá Hvolsvelli í Rangárþingi eystra. Önnur tók gildi í febrúar en hin seint á síðasta ári. 

Vel þjálfað og fyrst á staðinn

„Það má ekki gleyma því að þetta fólk er vel þjálfað og þessir einstaklingar eru þeir fyrstu á vettvang til að veita utanspítalaþjónustu sem er gríðarlega mikilvæg. Þetta er mannslífabjörgun,“ segir Stefán. 

Hann segir að í heild sinni eigi þjónusta utan spítala undir högg að sækja. „Hún mætir ekki skilningi stjórnvalda. Það er ekki hægt að hafa þetta svona lengur.  Við viljum klára þetta. Ég spyr hreinlega: Hvað ætlar fólk að gera á Blönduósi?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert