Safnaðarheimili rís á Völlunum

Nýtt safnaðarheimili rís nú í Hafnarfirði.
Nýtt safnaðarheimili rís nú í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veglegt safnaðarheimili sem hýsa mun starfsemi Ástjarnarkirkju er nú risið við Kirkjutorg á Völlunum.

Í fjölnotasal safnaðarheimilisins munu guðsþjónustur Ástjarnarkirkju fara fram ásamt fjölbreyttu safnaðarstarfi. Byggingin er um 580 fermetrar að stærð. Starfsmannaálma er tilbúin og unnið er að fullu við framkvæmdir og frágang á fjölnotasalnum.

Arkís arkitektar ehf. sjá um hönnun byggingarinnar. Hönnuðir vinningstillögu úr samkeppni sem efnt var til eru arkitektarnir Björn Guðbrandsson, Hulda Sigmarsdóttir, Aðalsteinn Snorrason og Egill Guðmundsson. S.Þ. verktakar efh. sjá um byggingu safnaðarheimilisins. Jarðvegsframkvæmdir hófust 23. ágúst 2015 og verður húsnæðið tekið í notkun á næstu vikum. Kirkjustarf mun þá færast úr núverandi húsnæði sem er löngu sprungið. Það húsnæði samanstendur af tveimur skólastofum sem gefnar voru af Hafnarfjarðarbæ og gerðar upp árið 2007.

Núverandi kirkja tekur um 70 manns í sæti. Með tilkomu nýs húsnæðis verða sæti fyrir allt að 270 manns. Vegna smæðar núverandi kirkju hafa stærri guðsþjónustur farið fram í Haukaheimilinu einu sinni í mánuði og fermingar farið fram í Víðistaðakirkju.

Sr. Kjartan Jónsson sóknarprestur er ánægður með nýju bygginguna.

„Við hlökkum til að sjá starfið stóreflast. Fjölbreytt starf fer fram í núverandi húsnæði, öflugt barna- og unglingastarf. Starf eldri borgara, tónlistarstarf og þjónusta er veitt fólki af erlendu bergi brotnu, meðal annars með íslenskukennslu.“

Kjartan bætir við að Ástjarnarkirkja hafi hlotið tilefningu til hvatningarverðlauna Foreldrafélags Hafnarfjarðar fyrir starf sitt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert