Óskipulagður og léleg þjónusta

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Keflavíkurflugvöllur er löngu sprunginn og þjónustar flugstöðin ferðamenn illa. Sæti eru alltof fá fyrir brottfararfarþega og skipulagið slæmt. Þetta er mat ferðabloggara sem skrifar um reynslu sína af flugvellinum á vef Seattle Times. Vísar hann einnig til skrifa annarra Bandaríkjamanna á ferðasíðum á borð við TripAdvisor sem eru á sömu leið.

Brian J. Cantwell millilenti fyrr í mánuðinum á Keflavíkurflugvelli ásamt fjölskyldu sinni en þau voru á heimleið frá Skotlandi til Seattle. Segir hann brosin á andlitum fjölskyldumeðlimanna fljótt hafa þurrkast af andlitum þeirra eftir viku í Skotlandi þegar þau blönduðust mannhafinu í Keflavík. Þar hafi 15 flug verið á leið til Ameríku á sama hálftímanum og óskipulag verið einkennandi á vellinum.

Eins og í ódýru spilavíti

Vísar hann, eins og segir að framan, til skrifa samlanda sinna af upplifun sinni aðra daga á flugvellinum. Annar gagnrýnir þar tímann sem það tók flugvélina að fá flugvélastæði við flughöfnina þegar til Íslands var komið, og á leiðinni til baka hafi ekki verið hægt að fá sæti við brottfararhliðið. „Það sátu allir á gólfinu,“ skrifar sá.

Annar segir að röðin af fólki sem var á leið til Bandaríkjanna frá Íslandi hafi verið óskipulagt klúður. „Flugið okkar fór hálftíma of seint í loftið,“ skrifar sá, en hann átti flug 16. apríl síðastliðinn.

Cantwell segir að sér hafi liðið eins og í ódýru spilavíti á flugvellinum þar sem sígarettureykurinn frá reykingasvæðinu hafi borist inn í flugstöðina í hvert skipti sem hurðin að reykingasvæðinu opnaðist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert