Nauðganir grófari og fleiri en áður

Uppstillt mynd.
Uppstillt mynd. mbl.is/G.Rúnar

Nauðgunum fjölgar ekki aðeins á milli ára heldur verða þær sífellt grófari. Sjáanlegir, líkamlegir áverkar eru meiri en áður og brotaþolar lýsa mikilli niðurlægingu af hendi gerenda í orðum og athöfnum, segir Hrönn Stefánsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttöku Landspítalans.

Þetta kemur fram í frétt RÚV. Þar er haft eftir Hrönn að hún telji mögulegt að kláminu sé um að kenna. „Brotaþolar lýsa hálstaki og niðurlægingu, bæði í orðum og athöfnum,“ segir hún í samtali við RÚV.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði í samtali við mbl.is í lok síðasta mánaðar að tæplega 60 fleiri nauðgunarmál hefðu komið á borð samtakanna en árið á undan. „Það er nærtækt að álykta að nauðgunarfaraldur hafi átt sér stað,“ sagði hún í samtali við mbl.is.

Aldrei frá hafa eins margir leitað á neyðarmóttöku Landspítalans frá upphafi hennar árið 1993 og á síðasta ári, þegar 169 einstaklingar leituðu þangað. Þar af átta karlar. Er það tæplega 17 prósenta aukning á milli ára, en árið 2015 leituðu þangað 145 einstaklingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert