Lónið lokað næstu daga

Veðurblíðu notið í Bláa lóninu.
Veðurblíðu notið í Bláa lóninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bláa lónið og athafnasvæði þess verður lokað frá og með morgundeginum, 23. apríl, til og með næstkomandi fimmtudegi, 27. apríl. Þannig háttar til að setja þarf niður jarðsjávarlögn á svæðinu og sú framkvæmd er hluti af byggingu heilsulindarinnar Lava Cove.

Miklar framkvæmdir

Stefnt er að opnun heilsulindarinnar í haust svo og hótels sem verður starfrækt undir nafninu Moss Hotel. Lögnin mun flytja jarðsjó inn á lónsvæði lindarinnar og hótelsins. Nýframkvæmdunum öllum miðar vel áfram og lýkur í haust þegar hin nýja heilsulind og hótel verða tekin í notkun. Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er alls um 6 milljarðar króna.

„Við innleiddum aðgangsstýringu fyrir nokkru og það fyrirkomulag hefur gefist afar vel. Allir okkar gestir bóka heimsókn sína því fyrirfram og þannig náum við að stýra umferð. Við lokuðum því fyrir bókanir þá daga sem verður lokað hjá okkur nú í apríl,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Bláa lónsins. Hún segir þessar ráðstafanir hafa komið í veg fyrir núning sem hefði getað skapast vegna lokunar staðarins.

Skilningur sýndur

„Við kynntum lokunina einnig fyrir samstarfsfyrirtækjum okkar í ferðaþjónustu síðastliðið haust. Viðbrögð þeirra hafa verið góð og þau hafa sýnt verkefninu skilning,“ segir Magnea.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert