Kynntist ástinni á æskuslóðum

Anna Gunndís Guðmundsdóttir leikkona.
Anna Gunndís Guðmundsdóttir leikkona. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var rosalega góð upplifun,“ segir Anna Gunndís Guðmundsdóttir um reynsluna af að leika í kvikmyndinni Ég man þig sem frumsýnd verður 5. maí.

Hún leggur stund á nám í kvikmyndaleikstjórn í New York en segir að í gegnum leik sinn í myndinni hafi hún uppgötvað sig upp á nýtt sem leikkonu. 

Ég ákvað þegar ég var átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, jafnvel fyrr, það var allavega mjög snemma,“ segir Anna Gunndís Guðmundsdóttir, eða Dunda eins og flestir þekkja hana, sem útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ árið 2010. Hún hafði þá leikið með Leikklúbbnum Sögu, Freyvangsleikhúsinu og Leikfélagi Menntskólans á Akureyri og svo Leikfélagi Akureyrar. „Ég tók fyrst þátt í atvinnuleikhúsi hjá LA þegar ég var í fyrsta bekk í MA. Ég fékk hlutverk í Blessuðum jólunum sem Hlín Agnarsdóttir leikstýrði og um vorið í Tobacco Road sem Viðar Eggertsson leikstýrði.“

Dunda sem ólst upp við mikið fjör og frelsi á Akureyri, yngst sjö systkina, auk hunda, katta og páfagauka. Hún bjó líka svo vel að, pabbi hennar rak Leikfangamarkaðinn, eða Sigga Gúmm eins og markaðurinn var kallaður, í Hafnarstrætinu, þar sem hún gat endalaust laumast í sælgætið.

„Ég var yngsta barnið, það var ekkert eftirlit og ég var alltaf eitthvað að bralla. Bak við götuna okkar var tún sem allir í hverfinu þekkja sem Dallatún en þar var Dalli nokkur með hesta og kindur og gekk hann mér í afastað. Þangað mætti ég á hverjum morgni að moka undan hestunum og fékk að fara á bak á gamla hestinum. Ég tók líka á móti lömbum og gaf þeim ormalyf. Enn þann dag í dag elska ég skítalykt og hrossaskít.“

Eitt af bernskubrekum sínum og systur sinnar festi Dunda einmitt á filmu í stuttmyndinni „I Can't be Seen like This,“ sem hún gerði í meistaranáminu sínu í New York University þar sem hún leggur stund á nám í kvikmyndaleikstjórn og handritsgerð. Hún er enn að vinna að lokaverkefninu, kvikmynd í fullri lengd, en þurfti aðeins að leggja það til hliðar svo hún gæti sinnt nýjasta hlutverkinu sínu, móðurhlutverkinu. Dásamleg tveggja mánaða dóttir Dundu, Mía Eldey, fékk að vera með mömmu sinni í viðtalinu og hagaði sér mjög fagmannlega allan tímann.

Anna Gunndís ásamt Þorvaldi Davíð við tökur á Ég man …
Anna Gunndís ásamt Þorvaldi Davíð við tökur á Ég man þig.

Langt tökuferli

Dunda leikur hlutverk Katrínar í kvikmyndinni Ég man þig eftir Óskar Þór Axelsson sem verður frumsýnd 5. maí. Myndin er byggð á samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur sem fjallar um ung hjón, Katrínu og Garðar, sem leikinn er af Þorvaldi Davíð Kristjánssyni, sem ákveða að gera upp hús í niðurníðslu á Hesteyri, ásamt vinkonu sinni Líf, sem Ágústa Eva Erlendsdóttir leikur. Óhugnanlegir atburðir eiga sér stað í húsinu, og þeim tengist læknir úr Reykjavík sem leitar sonar síns, en Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með hlutverk hans.

„Í nóvember 2015 tókum við upp minn hluta í myndinni, en í nóvember 2016 tóku þeir upp seinni hlutann. Þær tökur áttu að fara fram um vorið, en þá fékk Jóhannes Haukur tækifæri til að leika í sjónvarpsþáttaseríunni Game of Thrones, og hann gat auðvitað ekki hafnað því þótt hann yrði drepinn eftir þrjár mínútur,“ segir Dunda og glottir.

„Við Þorvaldur fórum líka í smá aukatökur á sama tíma, en þá var ég komin sex mánuði á leið. Óskar sagði við Helgu Rós, búningahönnuðinn, að það yrði ekkert mál að fela bumbuna, því ég væri svo nett. Það var rétt, en hins vegar voru brjóstin á mér risastór og reyndust meira vandamál, en við náðum að fela það,“ segir Dunda og skellihlær.

„Allra seinustu tökurnar voru núna um daginn, þannig að ég er búin að vera barnlaus, ólétt og með lítið barn á meðan á tökunum hefur staðið. Það er svo gaman að það eru mjög margir sem unnu við myndina sem eru líka búin, eða við það að fara að eignast börn. Það er mikið barnalán í hópnum.

Leið vel fyrir framan myndavélina

Dunda er í sama námi við sama skóla og leikstjórinn Óskar Þór var í á sínum tíma. Hún þurfti að fá frí í skólanum og sleppa eftirsóttri aðstoðarkennarastöðu til að geta tekið þátt í gerð Ég man þig, en sér ekki eftir því.

„Ég hefði aldrei viljað sleppa þessu tækifæri. Þetta var frábær reynsla. Mér fannst alveg magnað að leika aftur fyrir framan myndvél eftir að hafa verið í leikstjóranáminu. Það fylgir því svo mikið öryggi að vita hvað er í gangi í tökunni. Ég er miklu slakari og tókst að vinna miklu betur með bæði tökumanninum og leikstjóranum, áður var ég miklu meira bara í samskiptum við leikstjórann en núna að dansa með þeim báðum,“ segir Dunda. „Tökumaðurinn er Jakob Ingimundarson sem hefur unnið í Noregi í um 20 ár bæði við auglýsingar, og kvikmyndir og sjónvarp. Hann er algjör snillingur og það var frábært að vinna með honum. Mér leið mjög vel fyrir framan myndavélina í þessum tökum. Ég var alveg óhrædd við að biðja um að fá að gera hlutina svona eða hinsegin,“ segir Dunda sem m.a. hefur leikið Hildi Líf í áramótaskaupinu, óbarnvænu barnapíuna Boggu í Fólkinu í blokkinni og aðalhlutverkið í kvikmyndinni Frost.

Anna Gunndís ásamt kettinum Atom.
Anna Gunndís ásamt kettinum Atom. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kontrólfrík og fullkomnunarsinni

„Óskar er líka frábær að því leytinu til að hann er rosalega vel undirbúinn, en á sama tíma svo opinn fyrir því að taka við hugmyndum frá öllum. Í stað þess að segja okkur leikurunum hvernig við ættum að gera senuna, spurði hann okkur hvernig við myndum gera hana og aðlagaði sig því. Það er frábært því þá verður hún eðlileg fyrir alla. Mér fannst það frábær vinnuaðferð.

Ég er algjört kontrólfrík og fullkomnunarsinni, en þegar ég kom svo aftur í skólann eftir tökurnar og fór að vinna mín verkefni, notaði ég þessa aðferð Óskars að leyfa leikurunum að koma með tillögur og efni til mín, í stað þess að skipa öllum fyrir í öllu. Það má alltaf vinsa úr og laga til, en maður fær bara svo mikla gullmola frá samstarfsfólkinu ef þú gefur því frelsi til þess að gefa af sér.“

Dunda segist aldrei hafa fengið jafnlangan æfingatíma. „Það er eiginlega aldrei gert ráð fyrir æfingatímabili í bíómyndum, þótt það sé reyndar aðeins að breytast. Æfingarnar skiptu miklu máli fyrir okkur, því við Þorvaldur áttum að hafa verið par frá því að við vorum unglingar, Ágústa Eva átti að vera góð vinkona okkur, og við þurftum að búa til dínamíkina á milli þeirra áður en við fórum í tökur.“

Blautþurrkuþvottur

„Fyrstu vikuna tókum við upp á Hesteyri og það þjappaði okkur svakalega vel saman. Við vorum í viku og sváfum í tveimur húsum. Við Þorvaldur og Ágústa Eva vorum í herbergi í Læknishúsinu með Hálfdani aðstoðarleikstjóra, og stór hluti af tökuliðinu svaf svo allur saman í einni flatsæng í skólanum.“

Læknishúsið sem er í bókinni er til staðar á Hesteyri og Yrsa skrifaði stóran hluta bókarinnar þar. Húsið sem við eigum að vera að kaupa og sem er í niðurníðslu er í rauninni í Grindavík, því öllum húsum á Hesteyri er mjög vel haldið við. Þannig að bæði og úti- og innitökurnar fyrir það hús tókum við í Grindavík, og svo er því húsi bara plantað eftir á inn í umhverfið á Hesteyri, útskýrir Dunda.

„Þótt tökurnar þar á Hesteyri hafi verið mjög skemmtilegar voru vinnuaðstæður oft erfiðar. Tæknifólkið sem var með þungan og fyrirferðamikinn búnað varð m.a. að halda á honum upp í mitt fjall þar sem við tókum upp. Svo var svo kalt að búningurinn minn blotnaði einn daginn og náði ekki að þorna yfir nóttina. Það var heldur ekki rennandi vatn og við gátum ekki farið í sturtu. Við reyndum að þvo okkur með barnablautþurrkum, og það náði visst langt. Hálfdan aðstoðarleikstjóri vaknaði síðustu nóttina við eigin svitalykt og þurfti að fara fram úr og nota nokkrar blautþurrkur bara til að geta sofið sjálfur! Hann var líklega ekki sá eini,“ hlær Dunda.

Ágústa Eva, Dunda, Óskar Örn og Þorvaldur Davíð.
Ágústa Eva, Dunda, Óskar Örn og Þorvaldur Davíð.

Leikarastarfið er skrítið

„Ég áttaði mig snemma á því að mig langaði að verða leikstjóri. Þegar ég komst í lokahópinn í Leiklistarskólanum sagði ég þeim að ég stefndi á leikstjórann. Þeir tóku mig samt inn, og reyndar er ég sannfærð núna um að það sé frábær grunnur fyrir leikstjóra að vera leikari. Ég fann í skólanum í New York að af því að ég hafði verið hinum megin við borðið, og vissi hvernig ég sem leikkona vildi láta tala við mig hafði ég þægilegt forskot á hina nemendurna sem komu úr alls konar áttum og sum höfðu aldrei unnið með leikurum áður. Þannig að góður leikur var mín sterka hlið sem leikstjóri.“

„Mig fór að langa að verða leikstjóri til að geta búið til mín eigin verkefni og vera ekki alltaf upp á aðra komin. Leikastarfið er ótrúlega skrítið starf því það veltur svo oft á geðþótta; passar maður inn í, er maður með rétta útlitið. Þetta er svo skrítið og maður á alltaf von á að fá höfnun. Hluti af því var líka að mig langaði að vera við stjórnvölinn, það er stjórnsemin í mér. En ég er orðin aðeins betri í því m.a. eftir að hafa unnið með Óskari. Það losnaði um eitthvað þá. Ekki mikið, en aðeins samt,“ segir hún kankvís.

„Þegar ég var í leiklistarskólanum vissi ég ekkert endilega hvort mig langaði að verða leikhúsleikstjóri eða kvikmyndaleikstjóri. En ég kunni ekkert á bíó, vissi ekki hvernig ætti að gera neitt þar. Ég hafi alltaf verið í leikhúsinu og var á heimavelli þar. Mér fannst að ég myndi læra miklu meira ef ég færi í kvikmyndaleikstjórn, og ég er mjög ánægð með þá ákvörðun.“

Ekkert „símtal“

„Þegar ég var að útskrifaðist úr leiklistarskólanum, var ég ein af fáum í bekknum sem fékk ekki „símtalið“. Það er talað um um að fá símtalið þegar maður fær atvinnutilboð við útskrift. Það var svolítið erfitt, en ég reyndi að ýta því frá mér. Ég fékk reyndar hlutverk í Hæ Gosa, en hafði líka sótt um starf sem framkvæmda- og viðburðastjóri á tjaldsvæði sem býður upp á brimbrettakennslu og leigu á Spáni. Eiginlega meikaði ég ekki þetta umhverfi, þar sem allir voru að spyrja mig hvað ég væri að fara að gera. Það var rosalega mikil pressa. Ég spurði mig hvort ég vildi þessa nokkra daga í tökum og óvissu eftir það, eða sex mánaða ævintýri á Spáni. Og ég valdi ævintýrið. Ég átt samtal við Ragnheiði Skúladóttur, sem þá var yfirdeildarforseti leiklistardeildar Listaháskólans. Hún sagði að það skipti ekki máli hvað ég gerði, því ferillinn væri ekki eitthvað sem þú sæir fyrir framan þig heldur eitthvað sem þú lítur til baka á og hefur þegar afrekað. Mér fannst mjög frelsandi að horfa á þetta þannig. Innst inni veit maður líka hvað maður vill. Ég átti dásamlegan tíma á Spáni. Við bjuggum bara í tjöldum, leigðum út brimbretti og fólk fékk kennslu hjá okkur og ég gat verið í sjónum á brimbretti þegar ég var ekki í vinnunni. Svo drakk maður hvítvín á kvöldin.“

Örlagastaðurinn Akureyri

„Ég gat notið dvalarinnar á Spáni því ég hafði fengið svokallaðan Leonardo-styrk, og vissi að ég var að fara að leika með leikhóp sem heitir Sigma í Köln í Þýskalandi. Eftir Spánardvölina starfaði ég þar í hálft ár sem leikkona og aðstoðarmaður listrænna stjórnenda. Við bjuggum í yfirgefinni skrifstofubyggingu þar sem við settum líka upp sýninguna í 60 endurinnréttuðum skrifstofum, sex klukkustunda gagnvirka sýningu. Ég var ráðin áfram hjá þeim sem leikkona sumarið á eftir og við settum upp leiksýningu á Salzburger Festspiele-leiklistarhátíðinni í Austurríki.“

Eftir Evrópuflakkið dreif Dunda sig aftur norður á æskuslóðirnar á gamla vinnustaðinn sinni í hjá Leikfélagi Akureyrar.

„Það kynntist ég nú honum Einari mínum, en við vorum bæði að leika í Svörtu kómedíunni sem María Sigurðardóttir setti upp, segir Dunda og á við eiginmann sinn Einar Aðalsteinsson sem þá var að stíga sín fyrstu skref sem leikari, nýútskrifaður frá London Academy of Music and Dramatic Art. Þau fóru svo bæði á samning árið eftir hjá Leikfélagi Akureyrar þegar Ragnheiður Skúladóttir tók við sem leikhússtjóri og voru þar þangað til Dunda komst inn í meistaranámið í kvikmyndagerð við New York University.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert