Íbúðabyggð í landi Vífilsstaða

Á myndinni másjá það land sem Garðabær kaupir af ríkinu …
Á myndinni másjá það land sem Garðabær kaupir af ríkinu merkt með grænu striki.Svarta línan eru bæjarmörkin við Kópavog. Byggðin í Vetrarmýri verður efst í landinu en í fyrrverandi landi Símans, gegnt hesthúsabyggðinni á Kjóavöllum, verður kirkjugarður og íbúðabyggð. Golfvöllurinn verður að hluta færður nær vatninu og nokkrar núverandi golfbrautir teknar undir byggð. Neðst á myndinni er Svínahraun, meðfram Reykjanesbraut, sem verður útivistarsvæði,enda friðað. Svæðið í kringum Vífilsstaðavatn er einnig friðað

Samningur var undirritaður á síðasta vetrardag um að Garðabær kaupi jörðina Vífilsstaði af ríkissjóði.

Um er að ræða alls 202,4 hektara sem er svæðið í kringum Vífilsstaðaspítala, svæði austan Vífilsstaða (Skyggnir), núverandi golfvallarsvæði GKG, friðland í Vífilsstaðahrauni (Svínahrauni) og Rjúpnahæð á móts við Kjóavelli.

Kaupverðið er 558,6 milljónir króna og byggist það á mati á grunnverði landsins sem aðilar stóðu sameiginlega að. Matið unnu Jón Guðmundsson, löggiltur fasteignasali, og Stefán Gunnar Thors umhverfishagfræðingur.

Við undirritun kaupsamnings koma til greiðslu 99,3 milljónir. Eftirstöðvar koma til greiðslu í tengslum við uppbyggingu svæðisins eða eigi síðar en innan átta ára. Til viðbótar grunnverði á seljandi rétt á hlutdeild í ábata af sölu byggingarréttar á svæðinu.

Í samningnum eru undanskildar allar húseignir ríkisins á Vífilsstöðum en gerðir verða lóðarleigusamningar um eignirnar.

Með kaupum á landinu tryggir Garðabær sér forræði yfir eignarhaldi landsins sem mun auðvelda bæjarfélaginu að vinna að gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið.

Íbúum Garðabæjar mun fjölga umtalsvert þegar uppbyggingu á svæðinu verður lokið, en íbúar Garðabæjar voru í gær 15.439.

Samkeppni um rammaskipulag

Í tillögu að nýju aðalskipulagi Garðabæjar er gert ráð fyrir að svæði Vetrarmýrar, Hnoðraholts og Vífilsstaða verði eitt skólasvæði með 1.200-1.500 íbúðum þar sem fléttast saman ólíkir hagsmunir með uppbyggingu íbúðarbyggðar, skóla- og íþróttasvæði og atvinnu- og þjónustusvæði. Samkvæmt áætlunum verða skólabyggingar á svæðinu 6.650 fermetrar og knatthús 9.000 fermetrar.

Að sögn Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, er stefnt að því að efna til samkeppni um rammaskipulag fyrir allt svæðið. Fyrir hendi sé rammaskipulag fyrir Hnoðraholt, sem var í eigu bæjarins, en hið nýja skipulag mun ná upp að Rjúpnahæð og Smalaholti. Að sögn Gunnars er mögulegt, vegna þess að rammaskipulag er til fyrir Hnoðraholt, að flýta deiliskipulagsvinnu á svæðinu.

Með samningnum við ríkið eignast Garðabær land þar sem nú er golfvöllur GKG. Samkvæmt vinnslutillögu í aðalskipulagi verður hluti golfvallarins tekinn undir byggð í Vetrarmýri. Í staðinn mun golfvöllurinn að hluta færast til suðausturs, í átt að Vífilsstaðavatni. Að sögn Gunnar Einarssonar býður það svæði upp á möguleika á mjög skemmtilegum golfbrautum.

„Við viljum ramma golfvöllinn vel inn og útbúa eitt skólahverfi. Við reiknum með að klára aðalskipulagið á þessu ári og gerum ráð fyrir að uppbygging geti hafist fljótlega,“ segir Gunnar.

Nýr kirkjugarður í Smalaholti

Landið í kringum spítalabyggingarnar er 162,5 hektarar. Einnig hefur Garðabær eignast land Símans á Rjúpnahæð, rúmlega 40 hektara. Þarna voru áður símamöstur og byggingar en allt er þetta farið núna. Í aðalskipulagi er ráð fyrir því gert að þarna verði kirkjugarður, þar sem heitir Smalaholt. Að sögn Gunnars er horft til þess að þarna geti einnig orðið íbúðabyggð og léttur iðnaður.

Loks er að nefna að Garðabær eignast land í Svínahrauni. Að sögn Gunnars var hraunið friðlýst með ríkinu á sínum tíma. „Við höfum friðlýst hraunið að stærstum hluta alveg frá Búrfelli niður að sjó. Þetta verður útivistarsvæði fyrir íbúa Garðabæjar og aðra sem vilja njóta,“ segir Gunnar.

Í umræðum um nýjan þjóðarspítala hefur verið bent á að Vífilsstaðaland væri heppileg staðsetning. Eins hefur verið bent á að þótt nýrri spítali verði byggður á Landspítalalóðinni þurfi að huga að öðrum slíkum spítala í framtíðinni.

„Það er möguleiki að byggja nýjan þjóðarspítala á svæðinu, en við getum ekki beðið endalaust eftir því að ríkið taki einhverja slíka ákvörðun. Við viljum hefja uppbyggingu þarna sem allra fyrst og búa til verðmæti úr landinu. Við höfum nokkur ár til að skoða þennan möguleika og ég útiloka ekki að við ræðum við ríkið,“ segir Gunnar Einarsson að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert