Betur fór en á horfðist

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Ófeigur

Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í barnaherbergi á ann­arri hæð í sjö hæða fjöl­býl­is­húsi í Þver­brekku 2 í Kópa­vogi fyrir hádegi í dag. Ein kona var í íbúðinni þegar eldurinn kom upp en börnin voru nýfarin út úr íbúðinni.

Konan brást hárrétt við þegar hún varð eldsins vör. Hún lokaði hurðinni inn í herbergið og hringdi á slökkviliðið áður en hún fór út úr íbúðinni. „Konan brást hárrétt við. Það skiptir miklu máli,“ segir Jóhann Ásgeirsson, varðstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sem stýrði aðgerðum. Hann segir að litlu hefði mátt muna að verr færi.

Lögreglan var fyrst á vettvang og hafði hún náð að slökkva eldinn að stærstum hluta með slökkvitæki sem var í lögreglubílnum. Eldurinn hafði meðal annars læst sig í fatahrúgu sem var á gólfinu og í nærliggjandi plastdót sem bráðnaði.    

„Þegar við komum á staðinn ljúkum við að slökkva í glóð í herberginu og reykræstum íbúðina með blásurum,“ segir Jóhann. Ekki þurfti að rýma blokkina vegna eldsins. Ekki tók mjög langan tíma að reykræsta íbúðina en einhver brunalykt er í húsnæðinu.

Lögreglan rannsakar eldsupptök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert