Stíga laust á bensíngjöfina í stað þess að bremsa

Álitsgerðin er sú fyrsta sem fjármálaráð sendir frá sér um …
Álitsgerðin er sú fyrsta sem fjármálaráð sendir frá sér um fjármálaáætlun stjórnvalda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útreikningar fjármálaráðs benda til þess að aðhaldsstig ríkissjóðs muni slakna stærstan hluta fjármálaáætlunar stjórnvalda fyrir árin 2018-2022. Það er aðeins árið 2018 sem það lítur út fyrir að aðhald muni aukast lítillega. Þannig virðist sem stjórnvöld séu að stíga lausar á bensíngjöfina þegar þau ættu að vera að bremsa og að sú slökun í aðhaldi ríkisfjármála sem hefur átt sér stað á undanförnum árum muni halda áfram á tímabili áætlunarinnar. 

Þetta kemur fram í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022, sem hefur verið birt á vef Alþingis. Ríkisstjórnin kynnti fjármálaáætlun til næstu fimm ára í lok mars.

Þetta er fyrsta álitsgerð sem fjármálaráð sendir frá sér um fjármálaáætlun. Hinn 9. febrúar 2017 skilaði fjármálaráð fyrsta áliti sínu á fjármálastefnu. 

Gunnar Haraldsson er formaður ráðsins og Axel Hall er varaformaður. Aðrir nefndarmenn eru: Ásgeir Brynjar Torfason, Þóra Helgadóttir Frost, Arna Olafsson, sem er varamaður, og Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, sem er einnig  varamaður.

Gengur líklega gegn grunngildi um stöðugleika

Í álitsgerðinni, sem telur um 40 blaðsíður, segir ennfremur, að í fjármálaáætlun komi fram að virðisaukaskattsívilnun ferðaþjónustunnar verði afnumin um mitt ár 2018 og verði þaðan í frá í almennu þrepi virðisaukaskatts.

„Erfitt er að finna haldbær rök fyrir því hví skattaleg meðferð ferðaþjónustu ætti að vera frábrugðin þeirri sem aðrar atvinnugreinar búa við. Mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þeim áhrifum sem slík breyting hefur á verðlag, straum ferðamanna og styrkingu krónunnar er að þau séu óveruleg.“

Jafnframt komi fram að lækka eigi almennt skattþrep virðisaukaskatts í janúar 2019 og sú aðgerð sé réttlætt með því aukna svigrúmi sem hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu skapi. „Sú sértæka aðgerð er líkleg til að ganga gegn grunngildinu um stöðugleika við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja,“ segir í álitsgerðinni.

„Sé það rétt að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu hafi óveruleg áhrif á komu og neyslu erlendra ferðamanna flytur sú aðgerð skattheimtuna af innlendri eftirspurn yfir á ferðaþjónustuna. Með stöðugleika að leiðarljósi er slíkt óvarlegt, í ljósi ofangreinds, nú um stundir þar sem þess háttar aðgerð ýtir undir þenslu. Í fjármálaáætlunina vantar nánari greiningu á þessum atriðum,“ segir ennfremur. 

Hætta á að allir geri sömu mistök

Fjármálaráð fjallar einnig um líkön og spágerð á Íslandi. Í áltisgerðinni segir m.a. eftirfarandi: „Einnig vill fjármálaráð benda á að ákveðinnar einsleitni gætir í líkönum og spágerð á Íslandi nú um stundir. Allir helstu aðilar hér á landi notast við líkan Seðlabankans við spágerð sína. Þetta er áhyggjuefni. Einsleit líkön leiða til einsleitra spáa og umræða um efnahagsmál verður einsleit. Slíkt eykur hættu á því að allir geri sömu mistök.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert