Aldarafmæli Leikfélags Akureyrar

Dúettinn Hundur í óskilum fór með gamanmál á afmælishátíðinni; Eiríkur …
Dúettinn Hundur í óskilum fór með gamanmál á afmælishátíðinni; Eiríkur Stephensen, til vinstri, og Hjörleifur Hjartarson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Haldið var upp á aldarafmæli Leikfélags Akureyrar, sem var í gær, með hátíðardagskrá í Samkomuhúsinu síðdegis að viðstöddu fjölmenni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hélt erindi og meðal þeirra sem skemmtu voru nokkrir af fyrstu fastráðnu leikurunum í sögu LA, Sunna Borg, Saga Jónsdóttir, Gestur Einar Jónasson og Aðalsteinn Bergdal, en þau eru öll heiðursfélagar. Hljómsveitin Hundur í óskilum fór með gamanmál og fluttar voru tónlistarperlur úr 100 ára sögu Leikfélagsins.

Afmælisrit og tónlistarveisla

Leikfélag Akureyrar var stofnað 19. apríl 1917 og verður aldarafmælinu fagnað út árið með margvíslegum viðburðum. Í haust kemur út afmælisrit þar sem saga félagsins frá 1992 til dagsins í dag er rakin og þá ætlar Menningarfélag Akureyrar, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, að standa fyrir veglegri afmælistónlistarveislu á haustmánuðum.

Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri - sem átti einmitt líka afmæli í gær - segir Leikfélag Akureyrar hafa verið alfvaka og skapandi kraft í sviðslistum. „Saga félagsins er algerlega samofin sögu þess samfélags sem það sprettur úr fyrst sem áhugaleikhús og svo sem atvinnuleikhús. Leiksýningar félagsins hafa orðið að segul fyrir áhorfendur heima og handan heiða. Auk þess hefur félagið gert strandhögg með sínar leiksýningar í höfuðborginni við frábæran orðstír,“ sagði Jón Páll í ávarpi í tilefni tímamótanna.

Aflvaki og skapandi afl til framtíðar

„Nú á þessum tímamótum er ekki bara um vert að líta til baka heldur taka stefnuna fyrir framtíðina. Aðgengi, mennska, hlutdeild, fjölbreytileiki, forvitni og gjafmildi eru vörður sem Leikfélagið vill hafa að leiðarljósi í þeirra víðasta skilningi í allri sinni starfsemi í framtíðinni. Það vill framleiða metnaðarfulla dagskrá sem hefur að leiðarljósi nýsköpun í sviðslistum og þá skyldu að færa sígild skáldverk nær áhorfendum í dag og þannig skapa ný samfélagsleg verðmæti. Leikfélagið vill rækta hæfileika ungs listafólks í frumsköpun í sviðslistum og vera gróðurhús fyrir hugmyndir, staður þar sem draumar geta ræst. Rödd ungs fólks er mikilvæg og ungu fólki skal gefið tækifæri til að eiga stefnumót við áhorfendur. Spurningum og rannsóknum borgaranna er gefinn snertiflötur við sitt samfélag í verkefnum Leikfélags Akureyrar,“ segir leikhússtjórinn og bætir við að endingu: „Með þessar vörður að leiðarljósi viljum við tryggja að Leikfélag Akureyrar verði aflvaki og skapandi afl til framtíðar.“

Heiðursfélagar Leikfélags Akureyrar, eftir að formlegri hátíðardagskrá lauk. Frá vinstri: …
Heiðursfélagar Leikfélags Akureyrar, eftir að formlegri hátíðardagskrá lauk. Frá vinstri: Saga Jónsdóttir, Haraldur Sigurðsson, Valgarður Baldvinsson, Sunna Borg og Gestur Einar Jónasson. Aðalsteinn Bergdal var horfinn á braut. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, flutti erindi á hátíðarsamkomunni.
Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, flutti erindi á hátíðarsamkomunni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Oddur Bjarni Þorkelsson, formaður Leikfélags Akureyrar, minntist nokkurra heiðursfélaga sem …
Oddur Bjarni Þorkelsson, formaður Leikfélags Akureyrar, minntist nokkurra heiðursfélaga sem fallið hafa frá á síðustu árum. Þráinn Karlsson leikari er einn þeirra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Sesselía Ólafsdóttir og Saga Jónsdóttir, einn heiðursfélaga LA, tóku lagið …
Sesselía Ólafsdóttir og Saga Jónsdóttir, einn heiðursfélaga LA, tóku lagið saman. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Gestur Einar Jónasson og Aðalsteinn Bergdal voru í hópi þeirra …
Gestur Einar Jónasson og Aðalsteinn Bergdal voru í hópi þeirra sem voru fastráðnir leikarar við stofnun atvinnuleikhúss á Akureyri, árið 1973. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, flutti ávarp.
Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, flutti ávarp. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Sunna Borg flutti hluta úr verkinu BarPar, sem þau Þráinn …
Sunna Borg flutti hluta úr verkinu BarPar, sem þau Þráinn Karlsson léku á vegum LA fyrir margt löngu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Selma Björnsdóttir steig á svið og söng í afmælinu.
Selma Björnsdóttir steig á svið og söng í afmælinu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Bjarni Snæbjörnsson leikari tók lagið í afmælishófinu.
Bjarni Snæbjörnsson leikari tók lagið í afmælishófinu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Kynnar á afmælishátíðinni voru Oddur Bjarni Þorkelsson, formaður LA, og …
Kynnar á afmælishátíðinni voru Oddur Bjarni Þorkelsson, formaður LA, og Vilhjálmur Bergmann Bragason, ritari stjórnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Fjórir leikhússtjórar LA og forseti Íslands. Signý Pálsdóttir, Magnús Geir …
Fjórir leikhússtjórar LA og forseti Íslands. Signý Pálsdóttir, Magnús Geir Þórðarson, Jón Páll Eyjólfsson, núverandi leikhússtjóri, Viðar Eggertsson og Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert