Hættulaust smástirni nálgast

JO25 og nálægð hans við jörðu í kvöld.
JO25 og nálægð hans við jörðu í kvöld. Kort/NASA

Þó að smástirni sem fer framhjá jörðu í kvöld sé það stærsta sem svo nálægt hefur komið í þrettán ár, er það það dauft að nota þarf tiltölulega stóran áhugamannasjónauka til að sjá það. Þetta segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnu­fræðivefsins, um smástirnið J025, sem verður í „aðeins“ 1,8 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu í kvöld, í um fimm sinnum meiri fjarlægð en tunglið okkar.

Sævar Helgi segir að smástirnið muni sjást frá Íslandi en sé það dauft að ekki sé hægt að skoða það með berum augum, nokkuð stóran áhugamannasjónauka þurfi til þess. Fyrir þá sem það vilja reyna eru líkurnar á að sjá þær mestar um miðnætti í kvöld, aðfaranótt 20. apríl. Þá verður það í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. „Þá er dimmast hjá okkur og smástirnið á þeim stað á himninum sem auðveldast væri fyrir okkur að finna það,“ segir Sævar. Hann segir að nota þurfi frekar nákvæm kort til verksins.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að smástirnið sé það stærsta sem komið hefur svo nálægt jörðu í þrettán ár eða frá árinu 2004. Steinninn uppgötvaðist árið 2014. Ekki nokkur hætta er á að J025 skelli á jörðinni að sögn geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA. 

„Það gerist alltaf annað slagið að smástirni komast svona nálægt okkur,“ segir Sævar. „Það gerist vikulega. Sem betur fer eru langflest þeirra lítil og fara framhjá langt frá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert