Leita félaga til að setja heimsmet með

Sigríður Ýr Unnarsdóttir og Michael Reid vilja fá fólk til …
Sigríður Ýr Unnarsdóttir og Michael Reid vilja fá fólk til að setja með sér heimsmet á hlaupahjólum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þau Sigríður Ýr Unnarsdóttir og Michael Reid eru þegar á skrá yfir heimsmethafa Guinness. Þau vilja hins vegar gjarnan bæta öðru meti í safnið og leita nú hér á landi að 22 félögum sem eru til í að reyna að slá með þeim metið yfir lengstu vegalengd sem farin er á hlaupahjóli á einum sólarhring.

„Við viljum fá með okkur skemmtilegt fólk sem er til í að taka þátt og gera þetta að skemmtilegu ævintýri,“ segir Sigríður Ýr. Þau ætla að kynna heimsmetstilraunina á Gló í Fákafeni næsta sunnudag og vonast til að fá þá fleiri í lið með sér. „Við ætlum að bjóða áhugasömum að prófa æfingahjólin okkar og svo erum við líka að spá í að setja upp tímatökubraut,“ segir hún.

Metið þarf að setja á löglegri jafnsléttu

Heimsmetið ætla þau síðan að reyna við í september innanhúss, enda er eitt af skilyrðum Guinness að heimsmetstilraunin sé gerð á „löglegri jafnsléttu“ sem ekki fer mikið fyrir utandyra hér á landi. Þau hafa því hug á að setja upp 100 metra langa boðhlaupsbraut innanhúss og eru nú að skoða ýmis íþróttahús með þetta í huga.

Vasahjólið ber nafn með rentu. Sigríður Ýr og félagar áður …
Vasahjólið ber nafn með rentu. Sigríður Ýr og félagar áður en lagt var af stað í 2500 km ferðalag. Ljósmynd/Sigríður Ýr

„Okkur reiknast til að við þurfum að meðaltali að vera að fara 100 metra braut á 15,4 sekúndum til að ná 560 km,“ segir hún. Núverandi heimsmet var sett í Bandaríkjunum í maí 2014, þegar 10 manna lið „The Night Razors“ lagði að baki 553,72 km vegalengd á einum sólarhring. 

Nái þau að koma saman 25 manna liði, sem er hámarksfjöldi samkvæmt reglum Guinness, felur það í sér að hver og einn þarf að leggja að baki 234 ferðir að meðaltali, en auk þeirra Sigríðar Ýr og Michaels er hjólagarpurinn Bjartur Snorrason í liðinu.

Snýst ekki bara um líkamlegan styrk

Þegar þau Sigríður Ýr og Michael settu sitt fyrra heimsmet, með því að leggja að baki 2.500 km vegalengd á svo nefndu vasahjóli (e. pocket bike) í Bandaríkjunum síðasta haust, var með þeim í för maður að nafni Chris Fabre. „Þar vorum við með mótorhjólasérfræðing og nú erum við með reiðhjólasérfræðing með brjálað úthald,“ segir Sigríður, en öll þrjú vinna þau sem jöklaleiðsögumenn. „Bjartur er búinn að taka þátt í WOW Cyclothon og er í alveg hörku hjólaformi.“

Hlaupahjólið er eins og flestir eiga að venjast, en dekkjastærðin …
Hlaupahjólið er eins og flestir eiga að venjast, en dekkjastærðin ætti að gera þátttakendum auðveldar um vik að slá metið.

Það er þó ekkert skilyrði að hafa tekið þátt í hjólakeppni áður, en Sigríður segir liðsmenn þó þurfa að vera í ágætis formi. „Við þurfum ekki endilega atvinnumenn, en fólk þarf að vera tilbúið í þessa áskorun. Þetta snýst ekki bara um líkamlegan styrk, því það þarf líka andlegan styrk til að ná að halda þetta út.“

Þó gamanið ráði för þá hafa þau samt lagt töluverða útreikninga í dæmið nú þegar og stefna þannig á að nota fjögur hlaupahjól, þannig að einn geti alltaf verið tilbúinn að leggja af stað er sá næsti kemur að brautarendanum. Hjólin verða ekki heldur þessi hefðbundnu hlaupahjól  sem fólk á að venjast, heldur með öllu stærri dekkjum.

„Samkvæmt reglum Guinness þá má ekki vera búið að breyta hlaupahjólinu á neinn hátt, en engin takmörkun er hins vegar sett á dekkjastærðina. Við vitum að því stærri sem dekkin eru því auðveldara er að hjóla á þeim og því teljum við okkur fá ákveðið forskot með því að vera á keppnishjólum með stærri dekk.“ Fjögur slík hjól, sem hvert kostar um 100.000 kr., eru nú á leið til landsins.

Gaman að taka nýjum áskorunum

Heimsmetið á vasahjólinu fengu þau staðfest í október á síðasta ári og með næstu áskorun í huga leikur blaðamanni forvitni á að vita hvort Sigríður Ýr sé mögulega hjólaóð?

„Nei alls ekki,“ svara hún. „En ég hef gaman af að hreyfa mig og taka nýjum áskorunum. Alveg eins og ég hafði aldrei prófað vasahjól áður ég lagði upp í þá ferð, þá hef ég heldur aldrei verið á hlaupahjóli meira en bara til gamans.“

„Mér fannst þetta skemmtileg áskorun og okkur finnst vera gerlegt …
„Mér fannst þetta skemmtileg áskorun og okkur finnst vera gerlegt fyrir okkur að setja þetta met,“ segir Sigríður Ýr. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Mér fannst þetta skemmtileg áskorun og okkur finnst vera gerlegt fyrir okkur að setja þetta met,“ segir hún. „Við sjáum þetta líka sem góða leið til að mynda skemmtilegt samfélag á Íslandi. Það er svo líka ágætisgulrót að komast í heimsmetabók Guinness.“

Þau vonast líka til að geta látið gott af sér leiða með áheitasöfnun í tengslum við heimsmetatilraunina.  „Við vorum svolítið sjálfselsk í því,“ segir Sigríður Ýr. „Við erum öll að vinna á jöklum og erum í góðu samstarfi við björgunarsveitirnar. Það var þess vegna með málefni líðandi stundar í huga sem okkur langar að styrkja björgunarsveitirnar með þessu framlagi.“ Hún segir þau vera búin að ræða við markaðsstjóra Landsbjargar, sem hafi verið þakklátur fyrir að þau skuli vilja safna áheitum með þessum viðburði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert