1 milljón óskráðar gistinætur í fyrra

mbl.is/Styrmir Kári

Seldar gistinætur í fyrra voru ríflega 8,8 milljónir, en þar eru meðtaldar rúmlega 1 milljón óskráðar gistinætur sem voru seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður. Seldum gistinóttum hjá skráðum gististöðum fjölgaði um 20,1% milli ára og fór úr 6,47 milljónum upp í 7,81 milljónir milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.

Gistinætur erlendra ferðamanna voru 89% af heildarfjölda gistinátta í fyrra, en flestar gistinæturnar eru á hótelum og gistiheimilum, eða 59% samtals. 11% gistinátta voru á tjaldsvæðum og 30% á öðrum tegundum gististaða. Undir þann lið flokkast meðal annars íbúðagisting, farfuglaheimili, orlofshús og heimagisting (Airbnb meðtalið).

Mest fjölgun á hótelum og gistiheimilum

Mesta fjölgunin á sér stað á hótelum og gistiheimilum, en í fyrra voru tæplega 5,2 milljónir gistinátta skráðar á slíkum stöðum og fjölgaði um 26% frá fyrra ári, þar af voru gistinætur á hótelum um 3,9 milljónir sem er 35% meira en árið 2015 og tæplega tvöfalt fleiri gistinætur en voru á hótelum árið 2013.

Grafík/mbl.is

Framboð hótelherbergja jókst mikið frá árinu 2015 til 2016 og sem dæmi fór framboðið úr 6.031 herbergi í janúar 2015 upp í 7.478 herbergi í sama mánuði árið 2016. Yfir sumartímann eru fleiri herbergi í boði, en í júlí 2015 var fjöldinn 7.372 og fór upp í 8.637 herbergi í sama mánuði í fyrra. Mesta framboðið í fyrra var þó í september þegar það fór upp í 8.791 herbergi, en mikið hefur verið byggt af nýjum hótelum undanfarið.

Nýtingin hefur aukist mikið milli ára

Nýting hótelherbergja hefur einnig aukist mikið milli ára, en þó mest yfir vetrarmánuðina þar sem áfram er verri nýting en yfir sumartímann.

Mest var nýtingin í júlí og ágúst þegar hún var 91% í fyrra og hækkaði um 2-7 prósentustig. Flestir aðrir mánuðir eru með nýtingu á bilinu 60-80%, en janúar er enn með slökustu nýtinguna eða 50%.

3.600 íbúðir á landinu í leigu á Airbnb

Hagstofan tekur fram að fjöldi óskráðra gistirýma og gistinátta á Airbnb og álíka vefsíðum sé áætluð, enda engin nákvæm tala til yfir fjölda þessara aðila. Áætlar Hagstofan að í fyrra hafi tæplega 3.600 herbergi/íbúðir verið reglulega til leigu í gegnum slíka þjónustu, þar af 2.000 á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við erlendar greiningar á nýtingu slíkra íbúða þar sem flestar eignir eru í útleigu í 1–3 mánuði (38%) á ári en fæstar (15%) í útleigu 10–12 mánuði á ári, þá áætlar Hagstofan að fjöldi gistinátta í gegnum þessa þjónustu hafi verið rúmlega 1 milljón á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert