Strandaði af því að sjókortin skorti

Björgunarbáturinn Sigurvin dregur Rifsnesið af strandstað í gærkvöldi.
Björgunarbáturinn Sigurvin dregur Rifsnesið af strandstað í gærkvöldi. mbl.is/Sigurður Ægisson

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir skort á nýjum sjókortum vera eina helstu ástæðu þess að línubáturinn Rifsnes strandaði skammt frá bryggju Siglufjarðarhafnar í gærkvöldi. Belgískt sanddæluskip vann í tvo mánuði í sumar við að dýpka höfnina og hafnar Gunnar því að eitthvað hafi farið úrskeiðis við þá vinnu.

„Innsiglingin var dýpkuð eftir nákvæmri áætlun,“ segir hann. „Það sem gerðist þarna var að báturinn bakkaði heldur rausnarlega þegar hann fór frá bryggju og fer þá utan í kantinn hinum megin.“ Gunnar segir innsiglinguna vera níu metra djúpa og breiða, en kantinn sem Rifsnesið fór upp að hins vegar vera bara 2-3 metra að dýpt. „Þannig að þetta er nú bara óhapp sem getur alltaf gerst.“

Frétt mbl.is: Skipið komið í höfn

Frétt mbl.is: Skip strandaði á Siglufirði

Bæjaryfirvöld þurfi þó að láta merkja innsiglingarrennuna með baujum líkt og gert hafi verið á Ísafirði og fleiri stöðum og það standi líka til. „Síðan liggja sjókort vegna dýpkunarinnar ekki fyrir enn þá.“

Innsigling í Siglufjarðarhöfn á því að hans sögn ekki að fela í sér neina erfiðleika fyrir þau skemmtiferðaskip sem koma þar að landi næsta sumar. „Þarna er sér snúningspláss fyrir skemmtiferðaskip, það er bara aðeins norðar en Rifsnesið bakkaði.“  

Aðalmálið sé að sjókortin eru ekki tilbúin enn þá, en þau eru að sögn Gunnars í vinnslu hjá Vegagerðinni og er þeirra að vænta á næstunni. „Þegar sjókortin koma þá verður hvert skip með sjókort og skipstjórnendur sjá þá alveg hvernig rennan er og þá á þetta ekki að koma fyrir aftur.“  

Belgíska sanddæluskipið Galilei að störfum í Siglufjarðarhöfn í sumar.
Belgíska sanddæluskipið Galilei að störfum í Siglufjarðarhöfn í sumar. mbl.is/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert