„Ísland ætti að gera miklu meira“

Ban Ki-moon sagði á blaðamannafundi í dag að Ísland ætti …
Ban Ki-moon sagði á blaðamannafundi í dag að Ísland ætti að vera leiðandi þegar kemur að sjálfbærri orku. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ísland ætti að gera miklu meira í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þetta sagði Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, á blaðamannafundi sem fram fór í Hörpunni í dag. Ki-moon er hér á landi á þingi Arctic Circle – Hringborðs norðurslóða, sem haldið er um helgina.

„Ísland er skínandi fyrirmynd á öllum sviðum hvað þetta varðar,“ sagði Ki-moon og bætti við að landið væri lítið og ekki valdamikið en það gæti oft og tíðum haft marga kosti í för með sér. Á sviði sjálfbærrar orku og í baráttunni gegn loftslagsbreytingum gæti landið verið leiðandi.

Ísland geti verið leiðandi

Ki-moon sagði öll lönd hafa mikilvægu hlutverki að gegna í loftslagsmálum, en Ísland gæti lagt meira af mörkum en mörg önnur lönd. Vegna fjölda jökla og auðlinda hér á landi væri hægt að nýta náttúruna á sjálfbæran hátt. „Ísland hefur svo mikla náttúru sem getur verið leiðandi í sjálfbærri orku í heiminum,“ sagði hann og bætti við að loftslagsbreytingar væru aðeins byrjunin.

„Við búum í erfiðum heimi en við höfum sýnt merki um betri framtíð. Við biðjum Ísland og fólk á Íslandi að leggja miklu meira af mörkum til að gera framtíðina okkar á þessum hnetti betri.“

Ban Ki-moon tók í dag við Arctic Circle-verðlaununum sem voru …
Ban Ki-moon tók í dag við Arctic Circle-verðlaununum sem voru nú veitt í fyrsta sinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Risastórt skref fyrir mannkynið

Mikilvægt væri að ríki heimsins nýttu sér þann meðbyr sem myndast hefði í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París. Eins og kunnugt er samþykktu sendi­nefnd­ir 195 þjóða sögu­legt sam­komu­lag í París í lok síðasta árs til að reyna að vinda ofan af lofts­lags­breyt­ing­um sem or­sakað hafa hlýn­un jarðar. Sam­komu­lagið fel­ur m.a. í sér áætlan­ir um varn­ir gegn áhrif­un­um. 

Til­gang­ur sam­komu­lags­ins er að halda hlýn­un jarðar „vel inn­an við“ 2°C og að kepp­ast að því að hún verði ekki meiri en 1,5°C ef mögu­legt er. Nú hafa 74 lönd fullgilt samninginn, sem mun öðlast gildi 4. nóvember. „Það er risastórt skref fyrir mannkynið til að takast á við vandann,“ sagði Ki-moon.

„Við treystum á framlag Íslands“

Þá sagði hann að Ólafur Ragnar Grímsson hefði sinnt mikilvægu hlutverki sem formaður Arctic Circle síðan hann lauk starfi sínu sem forseti Íslands. Það starf gæti haft mikil áhrif til framtíðar. Ki-moon studdi stofn­un Hring­borðsins á sín­um tíma og sendi ávarp á fyrsta þing þess í Reykja­vík. „Við þurfum að halda áfram og við treystum á framlag Íslands.“ 

Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd í apríl, en við undirritunina sagði Sigrún Magnúsdóttir, um­hverf­is- og auðlindaráðherra að Ísland myndi leggja sig fram við að hrinda mark­miðum Par­ís­ar­samn­ings­ins í fram­kvæmd. End­ur­nýj­an­leg orka væri notuð við hit­un og raf­magns­fram­leiðslu á Íslandi, en draga yrði úr los­un frá öðrum upp­sprett­um. Íslensk stjórn­völd styddu við upp­bygg­ingu innviða fyr­ir raf­bíla og ynnu að minnk­un los­un­ar frá sjáv­ar­út­vegi og land­búnaði í sam­vinnu við at­vinnu­lífið. Mik­il­vægt væri að vinna að kol­efn­is­bind­ingu úr and­rúms­loft­inu jafn­framt því að draga úr los­un. Ísland myndi efla skóg­rækt og land­græðslu, en á heimsvísu væri mik­il­vægt að berj­ast gegn eyðimerk­ur­mynd­un.

Ban Ki-moon og Ólafur Ragnar Grímsson við athöfnina í dag.
Ban Ki-moon og Ólafur Ragnar Grímsson við athöfnina í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Velsemi norðurslóðasamfélaga í húfi

Á fundi fyrr í dag var Ki-moon veitt Arctic Circle-verðlaunin, sem voru nú veitt í fyrsta sinn. Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin og sagði við afhendinguna að Ki-moon væri með skýra framtíðarsýn og að hann hafi í störfum sínum sýnt ótrúlega stjórnvisku og hugrekki. Verðlaunin eru veitt einstaklingum, stofnunum eða samtökum sem hafa beitt sér fyrir málefnum norðurslóða. Ki-moon sagðist við afhendinguna vera þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í því að gera heiminn að öruggari og sjálfbærari stað, sérstaklega fyrir komandi kynslóðir.

Sagði Ki-moon í ræðu sinni við afhendinguna að hlýnun á norðurslóðum væri að gerast hraðar en annars staðar á jörðinni. Ef hlýnun jarðar væri um 2° gæti það þýtt hlýnun um 4-5° á norðurslóðum. „Nú verðum við að breyta orðum í verk, og hrinda samningnum í framkvæmd,“ sagði hann. Ríkisstjórnir allra landa þyrftu að taka þátt og heimurinn yrði að sameinast til að vinna bug á vandanum. Þá sagði hann að samfélagsmiðlar væru mikilvægur vettvangur fyrir almenning til að þrýsta á ríkisstjórnir um að framfylgja sínum skuldbindingum hvað þetta varðar.

„Þetta er mikilvæg stund fyrir norðurslóðir. Þið eruð að takast á við afleiðingarnar af auknum ferðamannastraumi, auknum siglingum, stjórnun fiskveiða og samkeppni um olíu- og gasauðlindir. Velsemi norðurslóðasamfélaga er í húfi,“ sagði Ki-moon. „Við höfum ekki plan B því við höfum ekki plánetu B.“

Frétt mbl.is: Ræðir um áhrif leiðtogafundarins

Ki-moon mun ávarpa ráðstefnu í Háskóla Íslands í dag þar sem þess er minnst að þrjátíu ár eru liðin frá fundi Reagaan og Gorbachev. Þá fundaði hann með Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra í dag þar sem rædd voru loftslagsmál, málefni norðurslóða, heimsmarkmið um sjálfbæra þróun og jafnréttismál. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að Sigurður Ingi hafi þakkað Ki-moon fyrir hans mikla og góða starf við að gera heiminn betri og öruggari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert