„Nútímabarnsrán“ í uppsiglingu

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það má aldrei gerast að fimma ára gamall íslenskur drengur verði sendur til norskra barnaverndaryfirvalda, að sögn Kristjáns Möller, þingmanns Samfylkingarinnar. Í ræðu á Alþingi sagði hann að honum sýndist að í uppsiglingu væri nútímabarnsrán framkvæmt af norskum barnaverndaryfirvöldum.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á máli drengsins á Alþingi í gær en fjallað hefur verið um það í Stundinni að undanförnu. Til standi að senda drenginn til vistunar í Noregi vegna áfengisvanda sem hún glímdi við þegar fjölskyldan bjó þar. Hún hefur síðan flutt til Íslands.

Frétt mbl.is: Mannréttindi brotin á fimm ára dreng

Kristján tók málið aftur upp við upphaf þingfundar í dag. Spurði hann hvers vegna málið hafi ekki flust til íslenskra barnaverndaryfirvalda þegar fjölskyldan flutti hingað frá Noregi. Honum sýnist að málið sé að snúast upp í martröð.

„Mér sýnist að í uppsiglingu sé nútímabarn[s]rán og framkvæmt af norskum barnaverndaryfirvöldum,“ sagði þingmaðurinn sem fullyrti að norsk barnaverndarlög væru harðneskjuleg og full mannvonsku.

„Ég hef oft komið í þennan ræðustól á sautján ára þingferli mínum. Ég hef hins vegar aldrei fengið áður sting í hjartað við að ræða mál og ég fer sorgmæddur úr þessum ræðustól,“ sagði Kristján titrandi röddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert