Mannréttindi brotin á fimm ára dreng

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Okkur hér í þessum ræðustól er tíðrætt um mannréttindabrot sem eiga sér stað úti í hinum stóra heimi,“ sagði Ragnheiður Ríkarðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Hún beindi sjónum að mannréttindabroti sem verið er að fremja á íslenskri fjölskyldu.

„Akkúrat í þessum töluðu orðum er verið að brjóta mannréttindi á litlum fimm ára dreng sem að ákveðið hefur verið að senda til norskrar barnaverndarnefndar vegna þess að móðir hans, ung kona, átti við áfengisvandamál að stríða meðan hún bjó í Noregi,“ sagði Ragnheiður og bætti við að móðirin hefði hafið meðferð, væri edrú og hefði flutt til Íslands þegar ljóst var að taka ætti barnið af henni.

Móðirin á fjölskyldu hér á landi en vegna þess að hún var svipt forræði yfir drengnum í Noregi og faðirinn býr í Danmörku og hefur engin afskipti af þeim, „þá á núna að taka þennan fimm ára dreng og flytja hann til Noregs.“

Drengnum verði komið fyrir á fósturheimili á meðan móðirin vinni í sínum málum. „Þetta þýðir að þessi fimm ára drengur verður í 14 ár á fósturheimili í Noregi. Móðir hans fær að hitta hann tvisvar á ári undir eftirliti,“ sagði Ragnheiður.

„Við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum og tölum um mannréttindabrot á fólki í Sýrlandi. Fyrir mig sem þingmann, fyrir mig sem móður og ömmu þá er þetta mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við,“ sagði Ragnheiður og skoraði á innanríkisráðherra og barnaverndarstofu að ganga tafarlaust í málið og „koma í veg fyrir að þessi litli fimm ára drengur verði rifinn frá móður sinni og og fjölskyldu hér á Íslandi og komið í fóstur í Noregi,“ sagði Ragnheiður og fjöldi þingmanna tók undir með henni í lokin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert