Ekki vísun að fastri viðveru

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. Eggert Jóhannesson

Sameiginleg yfirlýsing varnamálaráðuneytis Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Íslands sem undirrituð var í gær hefur verið í undirbúningi síðustu átján mánuði. Gunnari Braga Sveinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, og íslenskum stjórnvöldum fannst mikilvægt að formgera aukin samskipti ríkjanna varðandi loftrýmisgæslu og kafbátaleitarvélarvélar og tók Lilja Alfreðsdóttir við keflinu þegar hún varð utanríkisráðherra fyrr á þessu ári.

„Það hafa átt sér breytingar á samskiptum ríkjanna frá því að samkomulagið var gert árið 2006 þegar herinn var að fara. Þessar breytingar felast fyrst og fremst í tímabundinni viðveru er varðar loftrýmisgæslu og kafbátaleitarvéla. Yfirlýsingin er að formgera þau samskipti ríkjanna sem hófust árið 2008 og árið 2014. Það eru ekki breytingar á þessum samskiptum, heldur er verið að formgera þau,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Hún segir aðspurð að Íslendingar muni ekki finna fyrir breyttri viðveru hersins. „Nei. Miðað við þá stöðu sem er í dag erum við ekki að horfa fram á aukna viðveru, heldur er þetta tímabundin viðvera. Þetta er ekki vísun að fastri viðveru Bandaríkjahers,“ segir Lilja.

„Við erum í raun og veru að auka ákveðið gagnsæi í samskiptum með því að undirrita þessa yfirlýsingu og birta hana strax, ég lagði mikla áherslu á það. Ég er búin að upplýsa utanríkismálanefnd og þetta fór að sjálfsögðu inn í ríkisstjórnina. Svo fór Gunnar Bragi vel yfir samskipti Bandaríkjahers og íslenskra stjórnvalda og þessa auknu viðveru á Keflavíkurflugvelli 23. febrúar sl., þar gerði hann góða grein fyrir því hver þróunin hefur verið,“ segir Lilja.

Hafa orðið vör við hernaðarumsvif Rússa

Að mati ráðherrans þarf ekki að skerpa á samningum við aðrar þjóðir í kjölfarið. „Þetta byggir auðvitað allt á þessum tveimur grunnstoðum okkar er varða varnir Íslands. Í fyrsta lagi Varnarsamningnum frá 1951 sem er í gildi og svo okkar skuldbindingar er varða aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Þetta er í takt við það,“ segir Lilja.

Í yfirlýsingunni kemur fram að ástand öryggismála í Evrópu og á Norður-Atlantshafi hafi breyst síðan Bandaríkin og Íslands undirrituðu samkomulag sín á milli árið 2006.

„Þessi hernaðarumsvif Rússlands á Norður-Atlantshafi er það sem við höfum orðið vör við,“ segir Lilja. Hún segir samskiptin Íslands við Rússland hafa verið mjög góð. „Við viljum eiga í góðum samskiptum við rússnesk stjórnvöld. Sér í lagi hafa þau verið góð er varðar málefni norðurslóða,“ segir hún.

Í áttunda atriði samkomulagsins sem kveðið er á um yfirlýsingunni er fjallað um aukið samstarf landanna vegna leitar, björgunar og neyðaraðstoðar.

„Þetta felst í landamæragæslu og ákveðinni löggæslu. Þetta lítur fyrst og fremst að borgaralegum þáttum, þetta eru ekki nein hernaðarleg umsvif,“ segir hún. Hún segir Ísland þegar vera í samstarfi við fleiri ríki um þetta mál, til að mynda við Noreg og Frakklands. „Þetta einskorðast ekki við Bandaríkin, þessi samvinna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert