Banaslys kostar 659 milljónir

Hvert alvarlegt slys í umferðinni kostar 86,4 milljónir króna
Hvert alvarlegt slys í umferðinni kostar 86,4 milljónir króna Júlíus Sigurjónsson

Hvert banaslys í umferðinni kostar heilbrigðiskerfið hér á landi rúmar 659 milljónir og hvert alvarlegt slys kostar 86,4 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar um kostnað heilbrigðiskerfisins af umferðarslysum.

Á Landspítalanum voru alls 19 einstaklingar skráðir á endurhæfingardeild spítalans vegna afleiðinga umferðarslysa árið 2015 eða 1%. Þeir voru ýmist lagðir inn á deild eða komu í dagdeildar- eða í göngudeildarmeðferð.

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa nær engir sjúklingar verið lagðir inn á endurhæfingardeild vegna umferðarslysa síðastliðin ár. Þeir sjúklingar sem lenda í alvarlegum umferðarslysum eru sendir á Landspítalann og fá yfirleitt endurhæfingu þar. 

Á Reykjalundi hafa á árabilinu 2010–2015 komið 90–100 sjúklingar á ári til endurhæfingar í kjölfar umferðarslysa. Það svarar til 10% af heildarfjölda sjúklinga sem koma til meðferðar á Reykjalundi árlega. Á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði liggja ekki fyrir upplýsingar um hlutfall sjúklinga sem koma vegna afleiðinga umferðarslysa. 

Á árunum 2013, 2014 og 2015 var meðallegutími vegna afleiðinga umferðarslysa 7,3 dagar á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það  samsvarar að meðaltali 2,2 rýmum á Landspítala allt árið síðastliðin þrjú ár og 0,2 rýmum á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það samsvarar 0,3% af heildarfjölda sjúkrarýma á Landspítala og 0,2% á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

2.377 manns komu á bráðadeild/móttöku Landspítalans í fyrra eftir umferðarslys en 106 þeirra voru lagðir inn á spítalann. Þá komu 197 á Sjúkrahúsið á Akureyri í fyrra eftir umferðarslys og voru sautján lagðir inn á sjúkrahúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert