Þar munaði um r-ið!

Það er nokkuð ólíkt umhorfs á Laugavegi og Laugarvegi.
Það er nokkuð ólíkt umhorfs á Laugavegi og Laugarvegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamaður sem ætlaði á hótelið sitt í miðborginni keyrði í fimm klukkutíma frá Keflavík til þess eins að komast að því að GPS-tæki hans hefði leitt hann á Laugarveg á Siglufirði.

Frá þessu segir í færslu á Facebook hópnum Bakland Ferðaþjónustunnar þar sem vinkona konu sem fékk útlendinginn í heimsókn deilir sögunni.

Í upphaflegri færslu Siglfirðingsins segir að stuttu eftir hádegi hafi dyrabjöllunni hjá henni verið dinglað. Í dyrunum hafi staðið maður með bréfsnepil í höndunum sem hafi spurt kurteisislega hvort hann væri á réttum stað og bent á heimilisfang á miðanum.

„Ég skoðaði heimilisfangið og samkvæmt því var hann svosem „nálægt“ því að vera á réttum stað, nema hann var staddur á Laugarveginum á Siglufirði en ekki í Reykjavík. Ég spurði hvaðan hann væri að koma og hann svaraði mér því að hann væri búinn að keyra í fimm tíma alla leið frá KEFLAVÍKURFLUGVELLI!!! - ég stóð og horfði á hann og kom varla upp orði.... fór svo að hlæja og spurði hvort að honum væri alvara! Jújú, greyið maðurinn, sem kom með flugi frá NY í nótt átti pantað hótelherbergi á Laugarveginum í Reykjavík setti inn heimilisfangið í GPS tækið sem vísaði honum vegin alla leið norður á Siglufjörð.“

Á mistökunum er eflaust sú einfalda skýring að auka bókstafur hefur skotið sér inn í nafn Laugavegs í uppgefnu heimilisfangi hótelsins. Sú villa er algeng en munurinn á götuheitunum tveimur er sá að í miðbænum er aðeins eitt „r“ (Laugavegur) en á Siglufirði eru þau tvö (Laugarvegur).

„Ég bauð manninum inn, hringdi fyrir hann í hótelið sem hann átti pantað á og fékk því breytt og sendi hann svo á Siglo Hotel þar sem ég er alveg viss um að það hafi verið tekið vel á móti honum,“ skrifar Siglfirðingurinn sem tók á móti manninum. „Guð hvað ég vona að Íslandsdvölin hans gangi áfallalaust fyrir sig úr þessu og verði honum ánægjuleg“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert