Íslandspóstur fækkar dreifidögum í dreifbýli

Dreifidögum á sumum dreifbýlisstöðum mun fækka frá og með 1.mars …
Dreifidögum á sumum dreifbýlisstöðum mun fækka frá og með 1.mars næstkomandi. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandspóstur má fækka dreifingardögum sínum í dreifbýli niður í annan hvern virkan dag í stað daglegrar dreifingar. Þetta kemur fram í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar sem var birt í dag. Nýti Íslandspóstur sér þessa heimild mun það hafa áhrif á helming þess A-pósts sem skylt er að dreifa daginn eftir móttöku. Það er um 15% af öllum pósti sem telst til einkaréttar, en það er póstur sem er 0-50 grömm að þyngd og fellur undir undir alþjónustu.

Póstdreifing með þessum hætti yrði skipulögð þannig að dreift yrði á mánudegi, miðvikudegi og föstudegi aðra vikuna og á þriðjudögum og fimmtudögum hina vikuna, til skiptis, segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Árið 2013 var reglugerð um alþjónustu breytt þannig að ákveðin kostnaðarviðmið voru sett upp hvað gæti talist eðlilegur kostnaður við dreifingu í dreifbýli. Miðað var við að heimilt væri að fækka dreifingardögum í dreifbýli ef kostnaður væri þrefalt meiri en samskonar kostnaður í þéttbýli.

Tafla sem sýnir fjölda heimila sem breytingin nær til í …
Tafla sem sýnir fjölda heimila sem breytingin nær til í dreifbýli. Mynd/PFS

 

Útreikningar Íslandspósts sýndu fram á að kostnaður félagsins í dreifbýli væru yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru í reglugerðinni, en kostnaðurinn var 69.902 krónur á ársgrundvelli að meðaltali á hvert heimilisfang. Með þessum breytingum mun svokallaður alþjónustukostnaður Íslandspósts lækka um 200 milljónir á ársgrundvelli. 

Í tilkynningu frá Íslandspósti kemur fram að fyrrnefnd breyting muni taka gildi 1. mars og verður þá dreifidögunum fækkað. Kemur þar jafnframt fram að eftir að breytingin tekur gildi verður dreifing alla virka daga vikunnar til um 95% landsmanna.

Samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar  nær breytingin til 5.271 heimilis í dreifbýli og 1.622 heimila í minni þéttbýliskjörnum. Sjá má lista yfir þá staði í meðfylgjandi myndum.

Tafla sem sýnir fjölda heimila sem breytingin nær til í …
Tafla sem sýnir fjölda heimila sem breytingin nær til í minni þéttbýliskjörnum. Mynd/PFS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert