Andlát: Guðbjartur Hannesson

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðbjartur Hannesson, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, lést síðastliðna nótt á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, 65 ára að aldri. 

Guðbjartur var fæddur á Akranesi 3. júní árið 1950. Foreldrar hans voru Hannes Þjóðbjörnsson verkamaður og Ólafía Rannveig Jóhannesdóttir. Guðbjartur lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1971 og tómstundakennaraprófi frá Seminariet for Fritidspædagoger, Vanløse, Danmörku 1978. Hann stundaði síðan framhaldsnám í skólastjórn við Kennaraháskóla Íslands 1992–1995 og lauk meistaraprófi frá Kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) 2005.

Guðbjartur var alla tíð mikill skólamaður og starfaði lengi að þeim málum. Hann var kennari við Grunnskóla Akraness 1971–1973 og 1979–1981 og við Peder Lykke Skolen á Amager í Kaupmannahöfn 1978–1979. Guðbjartur var skólastjóri Grundaskóla á Akranesi 1981–2007. Þá sat hann í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981-2001. Hann sat í æskulýðsnefnd Akranesbæjar 1982-1986 og var fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981–2007.

Sveitarstjórnarmál voru Guðbjarti að sama skapi mjög hugleikin og sat hann í bæjarstjórn Akraness 1986–1998. Hann sat enn fremur í bæjarráði 1986–1998 og var formaður þess 1986–1989 og 1995–1997. Hann var forseti bæjarstjórnar 1988–1989, 1994–1995 og 1997–1998. Þá gegndi hann fjölda annarra trúnaðarstarfa, meðal annars á vettvangi sveitarstjórnarmála.

Guðbjartur var alla tíð mikill Skagamaður og þótti einkar vænt um sína heimabyggð. hann var kjörinn á Alþingi fyrir Samfylkinguna árið 2007. Hann var félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra 2. september 2010 til 31. desember 2010 og velferðarráðherra frá 2011-2013. Þá var hann forseti Alþingis 2009 og sat í fjölmörgum nefndum á vegum þingsins.

Eftirlifandi maki Guðbjarts er Sigrún Ásmundsdóttir yfiriðjuþjálfi. Dætur þeirra eru Birna fædd 1978 og Hanna María fædd 1988.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert