Veiddu regnbogasilung í Fljótaá

Regnbogasilungur úr Fljótaá.
Regnbogasilungur úr Fljótaá.

Um helgina veiddist 60 sm regnbogasilungur í Bakkahyl í Fljótaá í Skagafirði. Formaður Stangveiðifélags Siglfirðinga, Gunnlaugur St. Guðleifsson, veiddi fiskinn en með honum í för var Eiður Hafþórsson, stjórnarmaður í félaginu. Fiskurinn hefur nú verið sendur til greiningar hjá Veiðimálastofnun.

Þetta segir Orri Vigfússon, formaður NASF, verndarsjóðs villtra laxastofna, í tilkynningu.

Regnbogasilungur er ræktaður í sjókvíum hér við land. Hann er hvorki upprunalegur í íslensku vatnakerfi né annarra Evrópulanda, segir Orri. Hann er hluti af vistkerfinu í Norður-Ameríku en „ógnar náttúrulegu lífríki í íslenskum ám þegar hann sleppur úr eldiskvíunum. Regnbogasilungur er nú þegar mikill skaðvaldur í ám og vötnum á Írlandi og í Englandi þar sem hann hefur verið alinn í nokkur ár“, segir í tilkynningu Orra um málið.

Veiðiklúbbur Íslands hefur Fljótaá til leigu og er ásamt bændum við ána að byggja upp grunnstofna árinnar og ímynd hennar á alþjóðavísu. Orri segir að Fljótaá sé einhver gjöfulasta bleikjuveiðiá Íslands ásamt því að þar veiðist mikið af stórum laxi eins og í öðrum laxveiðiám norðanlands. „Þetta eru því mjög slæmar fréttir fyrir vistkerfið og alla sem bera hag villtra laxfiska í íslenskum ám og vötnum fyrir brjósti.“

Orri segir að ekki liggi fyrir hvaðan umræddur regnbogasilungur er kominn „en þessi dapurlega frétt er sönnun þess hve mikil og yfirvofandi hætta stafar af þeim áformum fiskeldismanna að ala regnbogasilung í sjávarkvíum í fjörðum landsins“, segir Orri.

Hann segir hætt við að skaðinn sé nú þegar skeður og erfitt muni reynast að vinda ofan af þeim mistökum að hafa leyft eldi regnbogasilungs hér við land. „Því til sönnunar að hér muni ekki vera um eitt einangrað tilfelli að ræða má benda á að sl. föstudag veiddist sams konar silungur í Eyjafjarðará og í fyrrahaust bárust fréttir af því að regnbogasilungur hefði veiðst í silungsá á Vestfjörðum. Þessi hörmungartíðindi gætu markað upphaf endaloka villtra stofna bleikju og urriða í íslenskum vatnakerfum. Þessi tíðindi eru jafnframt til vitnis um það sem mun gerast ef sjókvíaeldi á laxi verður stóraukið umfram það sem orðið er eins og nú eru uppi áform um. Erfðamengun af völdum sleppifiska úr fiskeldi er ekki bara hugsanleg ógn heldur raunverulegur og óafturkræfur skaði hvarvetna þar sem fiskeldi er stundað í sjókvíum,“ segir í tilkynningu Orra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert