Sérsveitin aldrei gripið til vopna

Vopnaðir menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra eru komnir á svæðið.
Vopnaðir menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra eru komnir á svæðið. mbl.is/Rósa Braga

Atburðir næturinnar í Hraunbænum, þar sem karlmaður hleypti af fjöldamörgum skotum á lögreglu- og sérsveitarmenn, eiga sér enga hliðstæðu á Íslandi.

Í tilraunum sérsveitarmanna til að yfirbuga manninn skaut hann ítrekað að sérsveitarmönnum. Eftir að hafa sært tvo þeirra, annan með því að skjóta í skjöld hans en hinn með því að hleypa af skotum að höfði hans, var hann felldur.

Annar lögreglumaðurinn féll við og datt niður stiga, en hinn fékk högl í andlit og aðra höndina. Báðir lögreglumennirnir leituðu læknishjálpar á bráðamóttöku, en aðeins eftir að hafa fundað með yfirmönnum lögreglunnar eftir að aðgerðum lauk.

Aldrei beitt skotvopnum á vettvangi

Sérsveit ríkislögreglustjóra, stofnuð árið 1982, hefur aldrei áður þurft að grípa til þess neyðarráðs að beita skotvopnum sínum á vettvangi, þó svo hún hafi margoft verið kölluð til í þeim tilgangi að yfirbuga menn, ýmist vopnaða skot- eða eggvopnum. Hins vegar kom fram í máli Jóns Bjartmarz, yfirmanns sérsveitarinnar, að sérsveitin hafi skotið gasi í aðgerðum sínum.

Frá ársbyrjun 2009 hefur sérsveitin haft í nógu að snúast. Strax 2. janúar gaf sig fram maður sem leitað hafði verið að þann daginn vegna vopnaburðar. Ekki kom til átaka og gaf maðurinn sig fram og afhenti lögreglu skotvopnið mótþróalaust. Daginn eftir kom í ljós að um 16 ára pilt var að ræða, sem hafði tekið skotvopn föður síns ófrjálsri hendi. Byssan var hlaðin.

Í apríl var sérsveitin kölluð til vegna ölvaðs manns á Akranesi. Maðurinn var vopnaður og höfðu aðstandendur áhyggjur af öryggi hans.

Í lok mars var sérsveitin svo enn kölluð til vegna manns sem gekk um í Skeifunni vopnaður skammbyssu. Þegar sérsveitin handtók manninn veitti hann ekki mótspyrnu, og í ljós kom að skammbyssan var óhlaðin. Í frétt mbl.is um atvikið segir meðal annars: „Maðurinn hafði ekki haft í hótunum við fólk en lögregla tók þó á málið af fullri alvöru. Svo virðist sem um einhvers konar vitleysisgang hafi verið að ræða en maðurinn sagðist hafa verið á leið á grímuball.“

Þá var vopnaður maður handtekinn með aðstoð sérsveitarinnar á Barðaströnd er hann gekk þar berserksgang, vopnaður skotvopni.

Skaut á hurð

Í nóvember árið 2009 var sérsveitin svo kölluð til þar sem maður með lambhúshettu, vopnaður haglabyssu, bankaði upp á í húsi í Seljahverfi í Breiðholti á fjórða tímanum aðfaranótt sunnudags og hóf skothríð þegar íbúi kom til dyra. Eftir því sem lögreglan kemst næst lokaði húsráðandi dyrunum um leið og hann sá byssumanninn en sá skaut fjórum til fimm haglaskotum í útihurðina og í glugga við hlið hennar.

Í desember sama ár var umsátursástand við hús í Reykjanesbæ þegar lögreglan á Suðurnesjum kallaði til sérsveitina vegna byssuhótana, en eftir um hálftíma umsátur um íbúðina þar sem meintir byssumenn héldu til gáfu þeir sig fram við lögreglu. Þeir voru þá án skotfæra.

Á aðfangadag 2010 var sérsveitin kölluð til eftir að skotið hafði verið úr haglabyssu á hurð við Ásgarð í Bústaðahverfi. Árásin var talin tengd undirheimum.

Sérsveitin þurfti enn að mæta á vettvang vegna íransks hælisleitanda sem hótaði að kveikja í sér á skrifstofum Rauða krossins. Mikil hætta skapaðist og mjög illa hefði getað farið.

Í nóvember 2011 var sérsveitin svo kölluð til vegna skotárásar í Bryggjuhverfinu. Árásin var talin til marks um aukna hörku í undirheimum.

Sprengjudeild við Stjórnarráðið

Undir lok janúarmánaðar á síðasta ári var tilkynnt um sprengju við Stjórnarráðið. Ekki reyndist hins vegar um sprengju að ræða.

Í febrúar 2012 þurfti sérsveitin að takast á við mann í Reykjanesbæ, sem tók á móti þeim vopnaður hnífi. Maðurinn reyndist hafa skotvopn, hnífa og sprengiefni í íbúð sinni. Maðurinn gekk undir nafninu Facebook-maðurinn eftir að ábending frá árvökulum notanda samfélagssíðunnar Facebook leiddi til þess að maðurinn var handtekinn. Lögregla fékk ábendingu um undarlegt háttalag mannsins á opinni Facebook-síðu hans. Lögreglumenn tóku ábendinguna strax alvarlega og fóru yfir efnið á síðunni.

Í júní sama ár afvopnaði sérsveitin svo mann í austurborginni, en sá hafði verið á gangi í íbúðahverfi með haglabyssu á lofti. Vopnið reyndist vera eftirlíking.

Í ágúst í fyrra var svo byssumaður handtekinn í Garðabæ eftir að hleypt hafði verið af skotvopni í íbúðarhúsi við Sunnuflöt. Maðurinn reyndist hafa verið vopnaður stórum og öflugum veiðiriffli. Engan sakaði, en um 30 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni.

Vopnað rán í miðbænum

Sérsveitin kom svo við sögu í ránsmáli í sjoppu við Grundarstíg, þar sem vopnað rán var framið seint um kvöld.

Á nýársdag var sérsveitin svo kölluð til vegna vopnaðs manns í Hafnarfirði. Þegar lögreglumenn komu á vettvang kom í ljós að maður í húsinu var vopnaður haglabyssu. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á staðinn og handtók hún manninn og var hann vistaður í fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu. Haglabyssan reyndist óhlaðin.

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í dag.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í dag. mbl.is/Júlíus
Lögreglan á vettvangi í morgun.
Lögreglan á vettvangi í morgun. Rósa Braga
Byssumaðurinn borinn á sjúkrabörum í sjúkrabíl í morgun.
Byssumaðurinn borinn á sjúkrabörum í sjúkrabíl í morgun. mbl.is
Aðgerðabifreiðar sérsveitar RLS. Myndin er fengin úr myndasafn RLS
Aðgerðabifreiðar sérsveitar RLS. Myndin er fengin úr myndasafn RLS mbl.is/rls
Íbúi í nágrenni hússins sem vopnaði maðurinn er í sendi …
Íbúi í nágrenni hússins sem vopnaði maðurinn er í sendi mbl.is þessa mynd af sérsveitarmönnum á vettvangi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert