„Grét þegar ég heyrði fyrstu hvellina“

„Ég leit út um gluggann og sá hlaupið á byssunni og manninn liggjandi uppi í rúmi,“ segir nágranni mannsins sem skaut að lögreglu og var að lokum yfirbugaður í Hraunbæ í morgun.

Lögregla var með mikinn viðbúnað í Árbæjarhverfi í morgun og var fjölmörgum skotum hleypt af. Skaut lögregla m.a. reyksprengju inn um eldhúsglugga íbúðarinnar. Byssumaðurinn er slasaður og hefur verið fluttur á slysadeild.

Að sögn nágranna mannsins kom maðurinn heim með miklum látum um klukkan ellefu í  gærkvöldi og var greinilega ölvaður. „Hundurinn vakti mig klukkan hálfeitt þegar ég var alveg að sofna, hann gelti við fyrsta skothvellinn. Ég hélt fyrst að þetta hefði verið árekstur,“ segir nágranni mannsins sem kom ekki dúr á auga í alla nótt.

Hann segir að maðurinn hafi skotið út á bílaplan í alla nótt og lögregla hafi komið á vettvang um fjögurleytið. „Ég hef aldrei séð svona marga lögreglubíla, bílastæðið var troðfullt af bílum,“ segir nágranni mannsins og viðurkennir að hafa verið afar hræddur. „Ég viðurkenni alveg að ég grét þegar ég heyrði fyrstu hvellina.“

Maðurinn var fluttur slasaður út úr húsinu um klukkan sjö í morgun eftir að lögregla hafði yfirbugað hann. „Sjúkraflutningamennirnir fóru með tvennar börur inn. Maðurinn var fluttur slasaður á öðrum og byssan á hinum,“ segir nágranni mannsins.

Nágranninn segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem nágrönnum standi ekki á sama vegna hegðunar mannsins og hefur lögregla oft þurft að eiga afskipti af manninum, að sögn nágrannans.

„Sum kvöldin sparkar hann í bílana hérna. Stundum stendur hann og kastar hlutum niður af svölunum og öskrar á börn,“ segir nágranninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert