Leifur stefnir á toppinn 23. maí

Leifur Örn Svavarsson.
Leifur Örn Svavarsson. mbl.is/Styrmir Kári

Fjallgöngumaðurinn Leifur Örn Svavarsson stefnir að því að komast á tind Everest-fjalls fyrir sólarupprás nk. fimmtudag, 23. maí. Leifur gekk upp í 7.000 metra hæð í gær og gekk gangan vel. Í dag mun hann svo fara upp í 7.700 metra hæð en gangan þykir erfið. Leifur er sagður í góðu formi.

Þetta kemur fram á ferðabloggi Leifs. Þar segir að gangan í dag sé erfið „upp endalausa brekku og þessi 700 m. hækkunin í heild sinni tekur um 8 klst.  Leifur ætlar að leggja snemma af stað því að veðrið á að vera betra fyrri hluta dags en svo á að þykkna upp og hvessa seinni partinn,“ segir á blogginu.

„Á miðvikudaginn gengur Leifur svo upp í 8.300 m. en þar munu þeir félagar leggja sig aðeins en leggja svo af stað eldsnemma á toppinn og ætla að vera það snemma á ferð að þeir áætla að toppa í birtingu þann 23. maí,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert