Snýtir blóði á leið á Everest

Leifur Örn (til hægri) ásamt dananum Bo sem hyggst klífa …
Leifur Örn (til hægri) ásamt dananum Bo sem hyggst klífa tindinn án súrefnis. Leifur Örn

„Á þriðjudaginn byrjuðu þeir að vinna sig aftur upp og hækka sig á hverjum degi,“ segir Sigrún Hrönn Hauksdóttir, kona Leifs Arnar Svavarssonar, fjallgöngugarps, sem klífur Everest.

Þessa dagana vinnur hópurinn sem hann ferðast með sig upp í 7.000 metra hæð og stefnir á að gista þar eina nótt. Hópurinn hefur áður komist upp í þessa hæð, en þarf að vinna sig hægt og rólega upp og niður fjallið til að venjast hækkuninni og þeim kvillum sem fylgja þunna loftinu.

Sefur sitjandi í svefnpokanum

„Kvillarnir sem eru helst að hrjá mann í hæðinni eru smávægilegir en óþægilegir,“ segir Leifur á bloggi sínu. Hóstann segir hann vera leiðinlegastan. „Við innöndun á köldu loftinu á daginn kveikir maður á hóstaviðbrögðum og þegar lagst er út af á kvöldin eftir kröftugt hóstakast er maður alveg að kafna.“

Kvefslím gerir andardráttinn erfiðan þegar lagst er út af. „Stundum er betra að setjast upp í svefnpokann á nóttinni til að ná betur að anda,“ segir Leifur. „Þó að ég hafi borið olíu og feitt krem inn á nasavængina, er ég stöðugt að snýta blóði.“

„Eins og oft hefur áreynslan komið af stað frunsu og sólsprungnum vörum,“ segir Leifur. „Ekkert af þessu er alvarlegt og mun örugglega koma aftur þegar ég hækka mig meira og sef í fyrstu búðum í 7.000 m hæð sem er næsta skref í aðlöguninni.“

Líf og fjör á fjallinu

Sigrún Hrönn fylgdi manni sínum fyrsta spölinn, eða upp í 6.400 metra hæð. „Það er kalt á nóttunni, á morgnana og á kvöldin,“ segir hún. „Manni er bara skítkalt, þetta er ekki notaleg vist.“

Hún segir umhverfið falleg. Tindurinn hafi blasað við þegar hún vaknaði á morgnana í grunnbúðunum. „Maður var með Everest-tindinn í baksýn,“ segir Sigrún. „Hann er yfirleitt baðaður í sól á morgnana.“

Það er einnig heilmikið líf á fjallinu. Jakuxarnir eru áberandi, en þeir bera búnaðinn upp í fjallið. Í hópnum sem Leifur er voru upphaflega 20 fjallgöngumenn, en nú eru 13 eftir. Hópnum fylgja 140 jakuxar.

„Tíbetarnir skreyta allt,“ segir Sigrún. „Þeir skreyta dýrin, trukkana og mótorhjólin.“ Hún segir fólkið mjög flott og harðgert. „Það lifir í takt við náttúruna eins og það hefur gert í hundruð þúsundir ára,“ segir Sigrún. Fólkið hefur fasta búsetu í þorpum sínum en fylgir jakuxunum í beitilöndin þegar fer að vora.

Tjaldað í grunnbúðum í 6.400 metra hæð.
Tjaldað í grunnbúðum í 6.400 metra hæð. Sigrún Hrönn Hauksdóttir
Á leið upp í 7.000 metra hæð.
Á leið upp í 7.000 metra hæð. Leifur Örn Svavarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert