Viðræðurnar við ESB verði settar á ís

AFP

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis lagði fram þingsályktunartillögu á fundi nefndarinnar í morgun um að viðræðurnar við Evrópusambandið um inngöngu Íslands í sambandið verði settar til hliðar og þær ekki hafnar að nýju nema með samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þingsályktunartillagan var lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd auk Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og einn af flutningsmönnum tillögunnar, sagði á Alþingi í morgun að stefnt væri að því að tillagan yrði tekin fyrir á fundi utanríkismálanefndar næstkomandi fimmtudag og hún tekin til efnilegrar meðferðar. Þingsályktunartillagan yrði síðan lögð fram í þinginu og vonandi samþykkt í kjölfarið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vakti máls á því að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hefði tekið miklu lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi og enn hefðu stærstu viðræðukaflarnir ekki verið teknir fyrir um sjávarútveg og landbúnað. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng og sagði tímabært að veita þeim þingmönnum sem samþykkt hefðu umsóknina á sínum tíma tækifæri til þess að endurmeta afstöðu sína.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fagnaði þingsályktunartillögunni og sagði ljóst að stóru kaflarnir yrðu ekki opnaðir fyrir þingkosningarnar í vor. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði tillöguna að sama skapi fagnaðarefni og að sífellt kæmi betur í ljós að það þjónaði ekki hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að farsælast væri að ljúka viðræðunum við Evrópusambandið og leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um aðildarsamning. Hann sagðist þeirrar skoðunar að umræður í aðdraganda þjóðaratkvæðis um það hvort halda ætti áfram með umsóknina um inngöngu í sambandið yrði ekki upplýst og myndi einkennast af upphrópunum.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, sagði að Jón Bjarnason hefði ákveðið að ganga í lið með framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum í utanríkismálanefnd án þess að bera það fyrst undir þingflokk VG þvert á reglur. Hann sagði að allar ákvarðanir varðandi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið á vettvangi VG hefðu til þessa verið teknar í samræmi við reglur flokksins og hann vænti þess að þannig yrði staðið að málum áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert