Með skrifstofu í ferðatöskunni

Hlín Baldvinsdóttir staldrar aldrei lengi við á Íslandi í einu …
Hlín Baldvinsdóttir staldrar aldrei lengi við á Íslandi í einu en dvelur langdvölum við malaríuverkefni í Afríku. Mbl.is/Ómar Óskarsson

„Margir segja að þetta hljóti að vera voðalega spennandi, en maður þarf að vera með dálítið harða húð og mikla þolinmæði til að geta gert það sem ætlast er til við aðrar aðstæður en maður hefur vanist,“ segir Hlín Baldvinsdóttir, sem er á stöðugum þeytingi um Afríku í malaríuverkefni Alþjóða Rauða krossins.

Hlín er einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands. Hún er rekstrarfræðingur og starfaði m.a. áður í hótelrekstri, en þegar hún varð fimmtug ákvað hún að söðla um. Síðan hefur hún m.a. starfað í Írak og í Haítí, eftir jarðskjálftann mikla þar, en lengstum tíma hefur hún varið í Afríku þar sem hún starfar sem fjármálastjóri og fylgir m.a. eftir umfangsmiklu malaríuverkefni bæði í Vestur- og Suður-Afríku.

Moskítóflugan drepur mest

Hlín andaði að sér vorloftinu á Íslandi í nokkra daga nú um miðjan maí en hélt aftur út á föstudag til Senegal, þaðan sem hún fer áfram til Síerra Leóne á morgun, þá til Namibíu og loks til Tógó. Malí, Nígerí og Kenýa eru líka meðal reglulegra viðkomustaða hennar. „Við erum með verkefni í öllum þeim löndum þar sem malaría er mikið vandamál. Sennilega eru fáir sem gera sér grein fyrir því að það sem drepur flesta í þriðja heiminum er pínulítil moskítófluga, ekki stríð eða hungur,“ segir Hlín.

Tölurnar eru sláandi. Samkvæmt úttekt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) deyr barn að jafnaði á 45 sekúndna fresti vegna malaríu. „Þetta er hlutur sem er hægt að koma í veg fyrir,“ segir Hlín og bendir á að vinnan hafi borið árangur. Samkvæmt tölum WHO hefur dregið aðeins úr barnadauða af þessum sökum, því áður dó barn að jafnaði á 30 sekúndna fresti.

Stundum eins og að ausa í botnlausa tunnu 

Malaríuverkefni Rauða krossins felast í að dreifa moskítónetum og tryggja með forvarnarfræðslu að fólk noti þau. Á síðasta ári varði Hlín t.d. mestum tíma í Nígeríu, þar sem 1,2 milljónum moskítóneta var dreift. Sú spurning vaknar hvort Hlín fallist aldrei hendur yfir umfangi verkefnisins og þeim gríðarlega vanda sem blasir við.

„Ég hef stundum sest niður og hugsað með mér að þetta sé dálítið stór kaka. Ég hugsaði kannski aðeins um það þegar við byrjuðum á malaríuverkefninu 2010, því þá voru 12 lönd á dagskrá, sem síðan urðu 16, og hvert með sínar þarfir. Það getur stundum komið vika eða mánuður þar sem mér finnst þetta eins og að ausa í botnlausa tunnu, en svo sér maður annað sem skilar árangri og gefur gott af sér og það heldur manni gangandi.“

Fylgist náið með kostnaði og árangri

Sjálf hefur Hlín nokkra sérstöðu sem sendifulltrúi hjá Alþjóða Rauða krossinum, því hún heldur utan um fjármálahlið malaríuverkefnisins í öllum löndunum. Það skýrir m.a. hversu víðreist hún gerir innan álfunnar. Að sögn Hlínar hefur það gjarnan verið veiki punkturinn í starfi Rauða krossins að þeir sem sjá um fjármálin séu víðs fjarri og hafi takmarkaðan skilning á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á staðnum. Hlín samtvinnar þessa þætti sem fjármálastjóri og sendifulltrúi. „Fjármáladeild situr yfirleitt á skrifstofu einhvers staðar og fær gögnin send, en ég er aftur á móti með skrifstofu í ferðatöskunni.“ Það hefur sýnt sig að þetta virkar. 

„Það er sjaldan talað um það, en við vinnum mikið að því að meta hver kostnaðurinn er og hvernig er hægt að fá sem mest út úr peningunum. Þeir sem gefa fé eru farnir að líta meira og meira til þess hvernig fénu er varið og hver árangurinn er. Ef þeir hafa trú á því að hann sé góður, þá er léttara að fá peninga og í okkar malaríuverkefni höfum við getað sýnt fram á að við pössum vel upp á peningana. Þar af leiðandi höfum við fengið það fé sem við þurfum á að halda.“

Auk malaríuverkefnis Alþjóða Rauða krossins sinnir Hlín einnig öðrum verkefnum, m.a. í Síerra Leóne núna í vikunni þar sem íslenski Rauði krossinn rekur heimili fyrir stríðshrjáð börn. „Ég fer þangað til að fylgja eftir fjármálunum fyrir síðasta skólaár og fara yfir stuðninginn fyrir næsta skólaári. Það eru um 150 börn á hverju ári sem fá aðstoð við að komast í nám eða iðnað, en þau fá líka aðstoð sem sálarlega truflun sem þau hafa orðið fyrir vegna stríðsins.“

Krefst gríðarlegrar þolinmæði og skipulagningar

Lífsstíll Hlínar er ævintýralegur en hann felur líka í sér ýmsar fórnir. Hún dvelur yfirleitt frá 2 upp í 4 mánuði úti í einu og staldrar stutt við á Íslandi þess á milli, 10-20 daga.   Hún játar því að þetta geti tekið á. „Ég er alltaf að vinna í því að styrkja og auka þolinmæðina, því það þarf gríðarlega þolinmæði í þetta og líka skilning á því að það sjá ekki allir hlutina á sama hátt og þú sérð þá. Svona vinnu þarf líka að skipuleggja gífurlega vel til að missa ekki þráðinn. Þú ert svolítið eins og trúður í sirkus með marga bolta á lofti.“

Alþjóða Rauði krossinn er með fjölmarga sendifulltrúa við ýmis verkefni um allan heim, þ. á m. eru alltaf nokkrir Íslendingar. Hlín segir að margir hafi áhuga á störfum sem þessum, en endurnýjunin sé hröð því fæstir geti hugsað sér að gera þetta að ævistarfi. „Því miður er það þannig, eins og þú getur ímyndað þér, að það er erfitt að eiga fjölskyldulíf þegar þú ert alltaf á ferðinni.“ Starfið sé ekki alltaf eins spennandi og það hljómar. 

Ísland togar stundum

„Að vera sífellt að tékka sig inn og út af flugvöllum og hótelum, þurfa að finna bestu leiðir til að komast á milli staða í landi þar sem samgöngur eru ekki þær bestu, netsambandið virkar ekki, maturinn er ekki eins og þú vilt hafa hann... Maður þarf að vera með dálítið harða húð og mikla þolinmæði til að hrista þetta af sér og geta gert það sem ætlast er til við aðrar aðstæður en maður hefur vanist.“

Hlín er nú samt ekki á þeim buxunum að hætta. „Fjölskyldan mín hlær nú svolítið að því að þegar ég byrjaði, 1998, þá sagðist ég ætla að vera í fimm ár. Nú er komið 2012 og ég er enn að. Þegar fjölskyldan stækkar, barnabörnunum fjölgar og Ísland togar, þá er ég alltaf að hugsa um það að á næsta ári ætli ég að hætta, og á næsta ári. En svo verður tíminn bara að segja til um það. Á meðan ég hef heilsu til og gaman af því, og á meðan þörfin er fyrir hendi, þá held ég áfram.“

Teymi sjálfboðaliða Rauða krossins í Nígeríu gengur hús úr húsi …
Teymi sjálfboðaliða Rauða krossins í Nígeríu gengur hús úr húsi og dreifir moskítónetum. Ljósmynd/Benoit Matsha-Carpentier / IFRC
Sjálfboðaliði Rauða krossins í Nígeríu gengur úr skugga um að …
Sjálfboðaliði Rauða krossins í Nígeríu gengur úr skugga um að moskítónetið sé eins og vera ber. Ljósmynd/Benoit Matsha-Carpentier / IFRC
Fulltrúar Rauða krossins við kanna hve margir búa á heimilinu …
Fulltrúar Rauða krossins við kanna hve margir búa á heimilinu til að tryggja að allir fái moskítónet. Ljósmynd/Benoit Matsha-Carpentier / IFRC
Þessar litlu flugur eru miklir skaðvaldar því með því að …
Þessar litlu flugur eru miklir skaðvaldar því með því að dreifa malaríusmiti valda þær fleiri dauðsföllum en nokkuð annað í Afríku. AFP
Hin 6 mánaða gamla Goodness var langt leidd af malaríu …
Hin 6 mánaða gamla Goodness var langt leidd af malaríu þegar móðir hennar kom henni undir læknishendur í Nígeríu en hún er nú á batavegi. Ljósmynd/Benoit Matsha-Carpentier / IFRC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert