Fékk 52 milljóna króna styrk

Meðal annars er áætlað að safna steingervingum á vesturströnd Grænlands …
Meðal annars er áætlað að safna steingervingum á vesturströnd Grænlands yfir sumartímann og þar verður rannsóknarteymið selflutt á milli jarðlagaopna með þyrlu. norden.is/Silje Bergum Kinsten

Dr. Friðgeir Grímsson steingervingafræðingur hlaut í byrjun mars veglegan styrk upp á rúmlega 52 milljónir króna frá austurríska rannsóknarsjóðnum (FWF, Austrian Science Fund). Styrkinn fær Friðgeir til rannsókna á plöntusteingervingum á Grænlandi og Færeyjum sem eru um 65 til 54 milljón ára gamlir og því frá upphafi Nýlífsaldar.

Friðgeir fær í lið með sér öflugan hóp vísindamanna frá Danmörku, Færeyjum, Svíþjóð, Austurríki og Bandaríkjunum. Meðal annars er áætlað að safna steingervingum á  vesturströnd Grænlands yfir sumartímann og þar verður rannsóknarteymið selflutt á milli jarðlagaopna með þyrlu. Vonast Friðgeir og samstarfsmenn hans að með þessum rannsóknum verði mögulegt að rekja uppruna og þróun margra þeirra viðarkenndu plöntuhópa sem í dag einkenna heittempruðu og tempruðu laufskógarbeltin á norðurhveli jarðar, segir í tilkynningu.

Mögulega gætu niðurstöður sýnt fram á við hvaða gróðurfarsbreytingum má búast á norðurslóðum samfara hlýnandi loftslagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert