Hafnfirðingar þora að stíga út fyrir rammann

Vinstri Grænir eru komnir með einn mann inn í Hafnarfirði þeir hlutu 12,4% eftir fyrstu talningu, fyrir síðustu kosningar hlutu þeir 2,9% og komu ekki inn manni. Fyrir þessar kosningar voru 7,4% stærstu tölur sem þeir hlutu þannig að Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir er að vonum ánægð með árangurinn. „Bæjarbúar hafa þorað að stíga aðeins út fyrir rammann og taka afstöðu með umhverfinu og kjósa nýja rödd inn í bæjarstjórn," sagði Guðrún Ágústa í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

„Við erum alfarið andsnúin stækkun álvers og töldum mikilvægt að sú rödd hljómaði innan bæjarstjórnar því það hefur ekki verið tilfellið fram til þessa," sagði Guðrún Ágústa.

„Svo skiptir máli að vera í flokki sem setur kvenfrelsi á oddinn og finnst sjálfsagt að hafa konur í fyrstu sætum. Af fjórum konum sem eru í efstu sætum á landinu eru þrjár hjá Vinstri Grænum og þær eru allar komnar inn," sagði Guðrún Ágústa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert