Breyting gerð á tillögu um Akureyrarvallarsvæðið

Frá Akureyrarvelli
Frá Akureyrarvelli mbl.is/Kristján

Breyting hefur verið gerð á fyrri tillögu meirihlutans í bæjarstjórn Akureyrar um skipulag Akureyrarvallarsvæðisins. Nú er lagt til að Akureyrarvallarsvæðið verði tekið undir útivistarsvæði, verslun og þjónustu ásamt íbúðabyggð en fyrri tillaga gerði ekki ráð fyrir verslun á svæðinu, en fasteignafélagið Þyrping hefur sótt um að reisa þar verslun.

Á blaðamannafundi á Akureyri í dag kom fram, að þetta væri gert til að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum. Samkvæmt tillögu meirihluta B- og D-lista í bæjarstjórn Akureyrar verður frjálsíþróttaaðstaða byggð upp á íþróttasvæðinu við Hamar í tengslum við Bogann og verði tilbúin fyrir Landsmót UMFÍ 2009.

Akureyrarvöllur verði ekki tekinn úr notkun fyrr en samkomulag liggur fyrir við íþróttafélögin KA og Þór um stuðning bæjarsjóðs við uppbyggingu félagsvæða þeirra.

Lokið verður við lagningu Miðhúsabrautar í einum áfanga

Meirihluti B- og D- lista í bæjarstjórn Akureyrar mun leggja til við bæjarstjórn að mætt verði óskum þess stóra hóps Akureyringa sem sendi inn athugasemdir við tillögu að aðalskipulagi bæjarins 2005-2018 og lutu að legu tengibrauta og nýtingu Akureyrarvallar.

Lagt er til að á árinu 2006 verði lokið við að leggja Miðhúsabraut frá Mýrarvegi að Súluvegi í einum áfanga. Til verkefnisins verði veitt 100 milljóna króna aukafjárveitingu við endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2006.

Á aðalskipulagi verði gert ráð fyrir Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis en framkvæmdir við götuna ekki hafnar fyrr, en áhrif af lagningu Miðhúsabrautar hafa verið könnuð og aðrir kostir reyndir til þrautar. Ef gatan verður lögð verður haft samráð við íbúa og hverfisnefndir um hönnun hennar, samkvæmt því sem kynnt var á fundi með blaðamönnum á Akureyri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert