Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir 22 milljarða í Reykjanesbæ og nágrenni á árinu: Meginhlutinn á vegum einkaaðila og hlutafélaga

Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is
Reykjanesbær | Áætlað er að framkvæmt verði fyrir um 22 milljarða króna í Reykjanesbæ og næsta nágrenni á þessu ári. Fram kom á Framkvæmdaþingi Reykjanesbæjar að það er fjórum milljörðum meira en opinberir aðilar og verktakar áætluðu á sama tíma í fyrra, fyrir það ár, og nemur aukningin fimmtungi. 83% framkvæmdanna er á vegum einkaaðila og hlutafélaga í eigu sveitarfélaga og ríkis en 17% eru á vegum sveitarfélagsins og annarra opinberra aðila.

Þetta er þriðja árið í röð sem Reykjanesbær safnar saman á framkvæmdaþingi upplýsingum um helstu framkvæmdir á árinu. Fjölmenna starfsmenn verktaka og aðrir áhugamenn á þingið og hlýða á samantektir fulltrúa stofnana og fyrirtækja.

Þróa nýja 8.000 manna byggð

Reykjanesbær leggur rúman milljarð kr. í nýbyggingu gatna í nýjum hverfum og viðhald. Er það talsvert meira en á síðustu árum enda er verið að byggja upp stór ný byggingasvæði. Fram kom hjá Sigríði Jónu Jóhannesdóttur, hjá þróunarsviði umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins, að húsbyggingar eru hafnar á flestum lóðanna í Tjarnahverfi en þar á að byggja 550 íbúðir og búið er að úthluta lóðum fyrir 130 íbúðir í Ásahverfi og fyrir 500 íbúðir í Dalshverfi I og verða þessar lóðir byggingarhæfar í vor og fram á haust. Þá stendur fyrir dyrum að úthluta lóðum fyrir 170 íbúðir í Dalshverfi II og verið að undirbúa næsta hverfi, Stapahverfi, með 1200 íbúðum. Jafnframt hefur miðjan við Reykjaneshöll verið skipulögð og verið að huga að lóðum fyrir verslunar- og þjónustubyggingar við Reykjanesbraut. Loks er verið að úthluta atvinnulóðum í Helguvík. Fram kom hjá Sigríði Jónu að alls er verið að þróa 8.000 manna byggð á sjö til tíu árum.

Fasteign hf. byggir og rekur fasteignir fyrir Reykjanesbæ. Jónas Þór Jónasson, hjá þróunarsviði fyrirtækisins, gerði grein fyrir helstu framkvæmdum þess á árinu. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging 50 metra keppnislaugar og sundagarðs við Sundmiðstöðina við Sunnubraut. Framkvæmdum er að ljúka og er áætlað að taka mannvirkið í notkun í apríl. Verið er að undirbúa annan áfanga Akurskóla í Tjarnahverfi, en það er íþróttahús og sundlaug. Fyrirhugað er að hefjast handa með vorinu. Þá er verið að undirbúa byggingu sex deilda leikskóla í Tjarnahverfi og hefst jarðvinna í næsta mánuði og einnig er verið að athuga með stækkun þeirra leikskóla sem fyrir eru.

Ýmis önnur verkefni eru í þróun hjá Fasteign og Reykjanesbæ. Jónas nefndi félagsaðstöðu fyrir Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag, íþróttasvæði vestan Reykjaneshallar, félagsþjónustumiðstöð fyrir eldri borgara og byggingu tónlistarmiðstöðvar við félagsheimilið Stapa. Heildarkostnaður við framkvæmdir í Reykjanesbæ í ár er áætlaður 0,9 til 1,1 milljarður kr.

Undirbúa álver og raforkuver

Hitaveita Suðurnesja er á lokasprettinum með byggingu Reykjanesvirkjunar og er jafnframt að hefja byggingu nýs orkuvers í Svartsengi, rannsaka möguleika á orkuöflun fyrir álver í Helguvík og að leggja hita og rafmagn á nýjum byggingasvæðum á orkuveitusvæði sínu sem nær yfir Suðurnes, Hafnarfjörð og hluta Suðurlands. Júlíus Jónsson framkvæmdastjóri áætlaði á framkvæmdaþinginu að heildarkostnaður á árinu væri um 5 milljarðar kr., þar af 4,5 milljarðar á Suðurnesjum.

Haukur Einarsson, verkfræðingur hjá HRV, sagði frá vinnu við undirbúning ákvörðunar um byggingu álvers Norðuráls í Helguvík. Áformað er að senda Skipulagsstofnun tillögu að áætlun vegna mats á umhverfisáhrifum álvers í næstu viku og að frummatsskýrsla verði lögð fyrir í vor eða sumar. Reiknað er með að niðurstaða umhverfismatsins muni liggja fyrir næsta vetur. Haukur sagði verktökunum að reikna mætti með því að bygging álversins yrði brotin niður í fjölda tilboðspakka, eins og gert hefði verið við byggingu álvers Norðuráls á Grundartanga, til að auðvelda innlendum verktökum að koma að framkvæmdinni.

Nýr búsetukostur

Nesvellir, fyrirtæki Húsaness, Fasteignar og Klasa, undirbýr uppbyggingu í þágu eldri borgara á íþróttavöllum Njarðvíkinga. Sigurður Garðarsson verkefnisstjóri sagði að þar yrði byggður upp meginhlutinn af þeirri aðstöðu sem eldri borgarar þyrftu á að halda. Byggðar verða hátækniíbúðir fyrir eldri íbúa, hjúkrunarheimili, öryggisíbúðir og íbúðir í fjölbýlishúsum og raðhúsum. Einnig þjónustu- og félagsaðstaða og útivistarsvæði. Fyrirhugað er að hefjast handa við fyrsta áfanga hjúkrunarheimilis í ár, þjónustu- og félagsaðstöðuna sem og fyrsta hluta öryggisíbúða og raðhúsa. Talaði Sigurður um þetta svæði sem nýjan valkost í búsetumálum eldra fólks. Í þetta verða lagðar 1,2 til 1,4 milljarðar kr. í ár.

Miklar framkvæmdir eru á Keflavíkurflugvelli, aðallega á vegum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Stefán Jónsson, forstöðumaður fasteignasviðs FLE, gerði grein fyrir þeim. Framkvæmt verður fyrir 3,7 milljarða kr. í ár, aðallega í breytingum og stækkun á núverandi flugstöðvarbyggingu. Þeim miklu framkvæmdum á að ljúka eftir ár. Stefán boðaði að ekki yrði staldrað mikið við eftir það, eðli starfseminnar væri þannig að halda þyrfti áfram. Spáði hann því að í framhaldinu yrði ráðist í stækkun landgönguhliða flugstöðvarinnar.

Á vegum Flugmálastjórnar verður fragtflughlaðið við Flugstöðina tvöfaldað. Þá kom fram hjá Ómari Ingvarssyni, af áætlunar- og þróunarsviði Flugmálastjórnar, að hafnar væru framkvæmdir við aðstöðuhús fyrir tvær bílaleigur og þjónustubyggingu á vegum Sverris Sverrissonar ehf. á nýju þjónustusvæði utan flugvallargirðingar.

Jónas Snæbjörnsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar, sagði frá helstu vegaframkvæmdum á Suðurnesjum. Þar ber hæst annan áfanga tvöföldunar Reykjanesbrautar. Þá kom fram hjá honum að von væri til þess að Borgavegur, nýr stofnvegur inn í Reykjanesbæ, yrði boðinn út á næstu mánuðum.

700-800 byggingaleyfi í ár

Verktakar standa í miklum framkvæmdum, bæði í nýjum hverfum Reykjanesbæjar og í gamla bænum. Fram kom hjá Sigríði Jónu Jóhannesdóttur hjá Reykjanesbæ að á síðasta ári hefðu verið gefin út 486 byggingaleyfi, á móti 83 á árinu 2004 og 53 á árinu 2003. Fyrstu tvo mánuði þessa árs hefur bærinn gefið út 120 byggingaleyfi og taldi Sigríður Jóna að með sama áframhaldi yrðu 700 til 800 byggingaleyfi gefin út á þessu ári.

Hér að framan er sagt frá framkvæmdum í nýju hverfunum. Í gamla bænum er það helst að við Keflavíkurhöfn eru fyrstu turnarnir risnir í fyrirhugaðri háhýsabyggð og fleiri á leiðinni og verið að deiliskipuleggja Vatnsnesið. Verið er að skipuleggja Hlíðahverfi á Neðra-Nikkelsvæði í Njarðvík og strandbyggð í Innri-Njarðvík.

Einar Guðberg hjá Meistarahúsum og Halldór Ragnarsson hjá Húsanesi sögðu frá framkvæmdum á vegum fyrirtækjanna sem eru stórtæk í uppbyggingunni í Reykjanesbæ.

Smáragarður ehf., sem er í eigu sömu aðila og Rúmfatalagerinn, undirbýr byggingu stórrar verslunarmiðstöðvar á landi sem fyrirtækið hefur keypt í Innri-Njarðvík. Er það svæðið við Reykjanesbraut þar sem nú er körtubraut Reisbíla. Áætlanir gera ráð fyrir byggingu 23.500 fermetra verslunarhúss, auk 1.000 fermetra húss fyrir veitingastaði og 1.500 fermetra fyrir bensínstöð. Til samanburðar má geta þess að húsið er tvöfalt stærra en Glerártorg á Akureyri sem Smáragarður reisti. Agnes Geirsdóttir, framkvæmdastjóri Smáragarðs, segir að unnið sé að undirbúningi. Í húsinu verði stórverslanir, meðal annars verslun Rúmfatalagersins, einnig matvöruverslun, heimilisverslun, fatabúð og fleira. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á næsta ári og ljúki á árinu 2008.

Árni Sigfússon bæjarstjóri tók saman niðurstöðurnar í lok framkvæmdaþings. Hann lagði áherslu á hversu ánægjulegt það væri að stór hluti framkvæmdanna væri á vegum einkafyrirtækja og hlutafélaga og talaði um 83% í því sambandi. Þá eru framkvæmdir á vegum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Hitaveitu Suðurnesja taldar með en þetta eru félög í eigu ríkis og sveitarfélaga. "Þetta sýnir okkur glöggt hvar krafturinn liggur og hvað mikilvægt er að virkja þennan kraft," sagði Árni. Hann sagði ánægjulegt að finna hversu vel verktakar hefðu tekið þeim verkefnum sem sveitarfélagið hefði ýtt af stað. Á betra verði ekki kosið. "Þannig viljum við hafa þetta, þannig veit ég að við getum unnið stóra sigra," sagði Árni Sigfússon.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert