Waters ekki velkominn

Roger Waters árið 2019.
Roger Waters árið 2019. AFP/Alberto Pizzoli

Kraká í Póllandi hefur lýst því yfir að Roger Waters úr hljómsveitinni Pink Floyd sé óvelkominn (persona non grata) þar í borg vegna skoðunar hans á stríðinu í Úkraínu.

Nokkrir dagar eru liðnir síðan tónleikum hans í borginni var aflýst af þessum sökum.

„Við viljum ekki sjá fólk í Kraká sem er hliðhollt Rússum í upplýsingastríðinu og styður eða endurtekur áróður Pútíns (Rússlandsforseta),“ sagði varaforseti borgarráðs, Michail Drewnicki, á Twitter.

Ákveðið var á borgarráðsfundi að Waters, sem er breskur, sé „persona nona grata“. Ákvörðunin er ekki bundin lögum.

Waters átti að halda tvenna tónleika í Kraká í apríl á næsta ári en á laugardaginn var greint frá því að þeim hafi verið aflýst.

Gagnrýndi Selenskí

Waters skrifaði opið bréf fyrr í þessum mánuði þar sem hann hvatti Vesturlönd til að hætta að útvega úkraínskum stjórnvöldum vopn. Hann sagði Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, leggja blessun sína yfir „öfgafulla þjóðerniskennd“ í Úkraínu og hvatti hann til að „binda enda á þetta mannskæða stríð“.

Olena Zelenskí, forsetafrú Úkraínu, svaraði á Twitter: „Þú ættir að biðja forseta Rússlands um frið. Ekki Úkraínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert