Varð móðir aðeins 16 ára

Michelle O’Neill hendir í sjálfu ásamt Mary Lou McDonald, formanni …
Michelle O’Neill hendir í sjálfu ásamt Mary Lou McDonald, formanni Sinn Féin, og fleira fólki eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir. AFP/Paul FAITH

Í ávarpi eftir kosningasigur Sinn Féin á Norður-Írlandi á dögunum lofaði Michelle O’Neill, verðandi fyrsti ráðherra, að stjórna landinu í þágu fjöldans og leyfa sem allra flestum blómum að blómstra. Sigurinn er sögulegur en Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP) eða forverar hans, sem styðja samband við Bretland, hafa ráðið ríkjum frá því að Norður-Írland varð til árið 1921, þegar Írland klauf sig frá breska konungsveldinu. Sinn Féin hefur nú 27 þingsæti á meðan DUP hefur 24. Hefð er fyrir því að stærsti sambandsflokkurinn fái embætti fyrsta ráðherra og stærsti lýðveldisflokkurinn embætti annars ráðherra. Nú mun þetta að líkindum snúast við.

Stærsta reynslan í lífinu

Sjálf hefur O'Neill þurft að hafa fyrir lífinu. Michelle Doris, eins og hún hét upphaflega, fæddist í County Cork, í suðurhluta landsins, 10. janúar 1977. Hún giftist Paddy O’Neill þegar hún var 18 ára en þau skildu árið 2014. Hún á tvö börn og það eldra, dóttirin Saoirse, fæddist þegar O’Neill var aðeins 16 ára. Nokkuð sem hún segir hafa mótað sig sem manneskju alla tíð síðan.

„Að verða ung móðir er mín stærsta reynsla í þessu lífi. Hún gerði mig að því sem ég er, gerði mig sterkari, að ég hygg. Ég veit hvernig það er að vera í erfiðum aðstæðum, hvernig það er að berjast í bökkum. Ég veit hvernig það er að mæta í skólann og skilja barnið eftir heima og að læra fyrir prófin,“ sagði hún við the Belfast Telegraph.

„Á þessum tíma, við erum að tala um 1993, var þjóðfélagið allt öðruvísi en í dag. Maður var kurteislega dreginn í dilk: Einstæð, ógift móðir, nánast afskrifuð. En ég var staðráðin í að fella mig ekki við þann dóm og leggja mig alla fram til að búa dóttur minni gott líf.“
Í viðtali við The Irish Times kvaðst hún vera lánsöm að hafa átt góða að á þessum tíma og fyrir vikið hafi hún getað gengið menntaveginn áfram. „Ekki eru allir svo heppnir.“

O’Neill á einnig soninn Ryan með fyrrverandi eiginmanni sínum.

Nýtt tímabil gengur í garð

O’Neill kvaðst í téðu ávarpi leggja upp með raunverulegar breytingar, þar sem áhersla yrði lögð á draga úr kostnaði heimilanna og efla heilbrigðiskerfi landsins. „Í dag gengur nýtt tímabil í garð sem ég trúi að komi til með að færa okkur öllum tækifæri til að endurskoða samskipti okkar á milli á grundvelli sanngirni, jafnréttis og þjóðfélagslegs réttlætis. Burtséð frá trú og pólitískum eða félagslegum bakgrunni fólks þá er ég staðráðin í að láta stjórnmálin virka.“

Michelle O’Neill ásamt Gerry Adams, þáverandi formanni Sinn Féin, þegar …
Michelle O’Neill ásamt Gerry Adams, þáverandi formanni Sinn Féin, þegar hún tók við af Martin McGuinness sem leiðtogi flokksins á Norður-Írlandi árið 2017. Vegur hennar fer áfram vaxandi. AFP/Paul FAITH


Ólst upp við hatur og flokkadrætti

Sjálf ólst O’Neill upp við hatur, flokkadrætti og aðskilnaðartilburði. Faðir hennar, Brendan Doris, sat um tíma í fangelsi vegna aðildar sinnar að Írska lýðveldishernum (IRA) og náinn frændi hennar var drepinn af sérsveit breska hersins (SAS) árið 1991, aðeins 21 árs að aldri. Hann var grunaður um að leggja á ráðin um að myrða háttsettan mann innan SAS. Annar frændi særðist í skotbardaga við breska herinn sex árum síðar. Faðir hennar varð síðar ráðgjafi hjá Sinn Féin.

En O’Neill heyrir til kynslóð sem komst til pólitískra áhrifa eftir að friðarsamkomulagið, sem kennt er við föstudaginn langa, var gert árið 1998 og batt í reynd endi á vargöldina í landinu.

Stjórnmálaskýrendur segja frjálslynda vinstristefnu, heillandi framkomu og pólitískt innsæi hennar ekki síst höfða til yngri kjósenda sem barma sér vegna skorts á framboði á öruggri atvinnu og húsnæði eftir fjármálahrunið árið 2008.

Nánar er fjallað um Michelle O'Neill í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert