Herinn fylgir eftir takmörkunum

Fáir eru á ferli um götur Sydney vegna útgöngubannsins.
Fáir eru á ferli um götur Sydney vegna útgöngubannsins. AFP

Yfirvöld í Ástralíu hafa sent hundruð hermanna til Sydney til að framfylgja útgöngubanni vegna kórónuveirunnar í borginni. 

Delta-afbrigðið leiddi til nýrrar bylgju faraldursins í borginni í júní sl. Síðan fyrsta smitið greindist hafa þrjú þúsund sýkst og níu látist. 

Hermenn ástralska hersins fara í þjálfun yfir helgina og hefja síðan óvopnað eftirlit á götum borgarinnar á mánudag. 

Útgöngubann í borginni verður í gildi til a.m.k. 28. ágúst. Í því felst að íbúar borgarinnar mega ekki yfirgefa heimili sín nema nauðsyn krefji, svo sem vegna nauðsynlegrar hreyfingar og matarinnkaupa. 

Þrátt fyrir að útgöngubannið hafi verið í gildi í fimm vikur hefur smitum haldið áfram að fjölga. 170 ný smit greindust á föstudag. 

BBC greinir frá því að sú ákvörðun að kalla út herinn hafi verið harðlega gagnrýnd, en herinn mun fyrst og fremst vera með eftirlit í fátækari hverfum borgarinnar þar sem harðari takmarkanir eru þegar í gildi en annars staðar í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert