Svarta ekkjan kærir Disney

Scarlett Johansson í hlutverki Svörtu ekkjunnar.
Scarlett Johansson í hlutverki Svörtu ekkjunnar.

Scarlett Johansson hyggst kæra Disney-samsteypuna vegna ákvörðunar þess efnis að gefa út nýjustu Marvel-ofurhetjumyndina „Black Widow“ á streymisveitu sinni Disney+ á sama tíma og myndin fór í sýningu í kvikmyndahúsum. Telur Johansson að það brjóti á skilmálum í samningi hennar við fyrirtækið.

Johansson, sem er ein af stærstu og launahæstu stjörnum Hollywood, er með skilmála í samningi sínum við Disney sem tryggir henni prósentu af miðasölutekjum í kvikmyndahúsum. Til stóð að frumsýna myndina snemma á síðasta ári, en sökum faraldursins hefur margsinnis þurft að seinka frumsýningu myndarinnar.

Þá hafa sérfræðingar ytra lýst því yfir að ástæða þess að myndin halaði inn tiltölulega lítið í kvikmyndahúsum, miðað við aðrar Marvel-myndir, sé einmitt að myndin hafi verið aðgengileg á streymisveitunni samtímis frumsýningu í kvikmyndahúsum.

„Það er ekkert launungarmál að Disney gefur myndina út á streymisveitunni Disney+ til þess að auka við fjölda áskrifenda og þar með auka virði hlutabréfa í fyrirtækinu, og að faraldurinn er notaður sem blóraböggull,“ er haft eftir lögmanni Johansson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert