Merktur Biontech klyfjaður amfetamíni

Bifreiðin, sem var útbúin þannig að sofa mætti í henni, …
Bifreiðin, sem var útbúin þannig að sofa mætti í henni, var merkt fyrirtækinu Biontech. Í rýminu á þaki hennar fann tollgæsla 40 kg af amfetamíni við komu til Larvik. Ljósmynd/Norska lögreglan

Pólskur karlmaður á sextugsaldri sætir ákæru í Noregi fyrir tilraun til að smygla 40 kílógrömmum af amfetamíni til landsins gegnum Larvik í Suður-Noregi, þangað sem hann kom með Danmerkurferjunni í janúar á þýskri bílaleigubifreið.

Til að kasta ryki í augu tollgæslu og lögreglu hafði maðurinn brugðið á það ráð að útvega sér segulskilti með merki bóluefnaframleiðandans Biontech og festa þau á vélarhlíf og hurðir bifreiðarinnar. Ákvað norska tollgæslan engu að síður að framkvæma leit í bifreiðinni og fannst efnið þá í rými í þaki hennar.

„Á því leikur enginn vafi að bifreiðin er merkt með það fyrir augum að hún virðist vera á vegum lyfjafyrirtækis,“ segir Håvard Kalvåg héraðssaksóknari í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, „svo átti að virðast sem þarna færi hjálparaðili tengdur faraldursástandinu.“

Ökumaðurinn reyndi að villa tollgæslu sýn með því að láta …
Ökumaðurinn reyndi að villa tollgæslu sýn með því að láta líta svo út sem hann væri á vegum lyfjafyrirtækis sem orðið er þekkt nafn í heimsfaraldrinum. Ljósmynd/Norska lögreglan

Ákærði hefur enn ekki viljað skýra mál sitt fyrir lögreglu, en ljóst er að hann gæti átt þunga refsingu yfir höfði sér fyrir svo mikið magn sterks fíkniefnis, allt að 15 ára fangelsi. Kalvåg saksóknari reiknar þó ekki með þeim málalokum. „Án þess að ég vilji gefa nokkurt ákveðið svar þætti mér ekki ólíklegt að refsingin í þessu máli yrði níu eða tíu ár við áfellisdóm,“ segir hann.

Engin nýlunda er, samkvæmt saksóknaranum, að fíkniefnasmyglarar sigli undir fölsku flaggi sem fulltrúar ýmissa fyrirtækja. „Hver og einn getur gert sér það í hugarlund hvað hér býr að baki eins og ástandið er núna, þegar maður læst vera frá lyfjafyrirtæki sem er orðið þekkt nafn í faraldrinum.“

Aðalmeðferð málsins hefst fyrir Héraðsdómi Vestfold 5. ágúst. Sverre Sjøvold, verjandi ákærða, kýs að tjá sig ekki um málefni skjólstæðings síns.

NRK

NRKII

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert