Leitar konu sinnar sem hvarf sporlaust

Esther Dingley og Dan Colegate.
Esther Dingley og Dan Colegate. Ljósmynd/Dan Colegate/LBT Global

Esther Dingley, þaulreynd göngukona, var ein á göngu í Pýreneafjöllum þegar hún hvarf sporlaust fyrir átta mánuðum síðan. Maki hennar til tuttugu ára, Dan Colegate, var á frönskum bóndabæ um 160 kílómetrum í burtu þegar Dingley fór í gönguna sem hún sneri ekki aftur úr. 

Í bréfi sem birtist á vef BBC útskýrir Colegate hvað hann hefur gengið í gegnum síðustu átta mánuði og hvers vegna hann óttast að Dingley hafi verið numin á brott, eða þaðan af verra. 

„Við Esther sögðum alltaf við hvort annað þegar við skildumst að: Þú veist aldrei hvenær það verður í síðasta sinn,“ segir Colegate. Þau orð urðu þau síðustu sem parið sagði við hvort annað áður en Dingley hvarf. 

Dingley hafði verið á göngu í Pýreneafjöllum í um mánuð fyrir hvarfið. Colegate segir að parið hafi talað saman á hverjum degi, sent hvort öðru myndir og skilaboð. Að eyða tíma í sundur var eitthvað sem þau höfðu innleitt í sambandið eftir að hafa ferðast um á húsbíl í sjö ár. 

„Hvað okkur varðaði var það til marks um traust, þroskað og heilbrigt samband,“ segir Colegate. „Samt sem áður, eftir mánuð, þá vorum við farin að telja niður dagana þangað til við sæjumst aftur. „Bara ein ganga í viðbót, af því að veðrið er svo gott“ hafði Esther sagt. Innan við viku hafði veröld mín hrunið,“ segir Colegate. 

Esther Dingley og Dan Colegate.
Esther Dingley og Dan Colegate. Ljósmynd/Dan Colegate/LBT Global

Þegar Esther hafði ekki aftur samband eins og hún hafði lofað reyndi Colegate að telja sér trú um að allt yrði í lagi. Hann hafði áhyggjur, en minnti sig á að Esther væri fær og sjálfstæður göngumaður. 

Að lokum ákvað Colegate að tilkynna lögreglu um hvarf konu sinnar. 

Lá og grét í innkeyrslunni 

„Ég eyddi fyrsta deginum eftir að ég tilkynnti um hvarfið að ganga fram og til baka í húsinu sem ég dvaldi í, svaraði spurningum og gaf björgunaraðilum skýrslum í gegnum síma. Ég sagði við sjálfan mig að hún ætti eftir að finnast fljótt. Kannski væri hún slösuð hugsaði ég, en að hún yrði brátt örugg,“ segir Colegate. 

Eftir því sem þessi fyrsti dagur eftir að Colegate tilkynnti um hvarfið leið varð hann sífellt örvæntingafullri. „Möguleikinn á að hún myndi ekki finnast svo auðveldlega læddist upp að mér eins og kaldur sviti. Mér leið eins og ég væri að kafna,“ segir hann.  

Colegate ákvað að leigja sér bíl svo að hann gæti keyrt að Pýreneafjallagarðinum og leitað sjálfur. Hann vildi hafa eitthvað að gera. Þegar hann sneri aftur á gististað sinn eftir árangurslausa leit „hneig ég niður í innkeyrslunni, lá í fósturstellingu og grét í mölina í eina og hálfa klukkustund,“ segir Colegate. 

Esther Dingley og Dan Colegate.
Esther Dingley og Dan Colegate. Ljósmynd/Dan Colegate/LBT Global

Colegate segist ekki hafa hugsað um annað síðustu mánuði en hvarf Dingley. Í fjóra mánuði, frá desember og fram í mars þessa árs, fór engin leit fram í fjallagarðinum vegna snjóþunga. Colegate segist þá hafa gengið eirðarlaus um heimabæ sinn Nottinghamshire og reynt að dreifa huganum. Fjölskylda hans hafi litið eftir honum og haft miklar áhyggjur. 

Þegar fjallagarðurinn varð loks fær síðasta vor hélt Colegate strax á svæðið. Hann hefur síðan þá gengið yfir 1.130 kílómetra á svæðinu í leit sinni að Dingley. 

 „Spurningin sem ég hef spurt mig eftir hvert skref er; ef hún hefði staðið hérna, hvar væri hún þá núna?“ segir Colegate. 

Auk Colegate hafa björgunarsveitir með leitarhunda leitað Dingley með aðstoð þyrla og fjórhjóla frá því í vor. Hvorki tangur né tetur hefur af Dingley hefur fundist. 

Colegate segist ekki geta sætt sig við þá skýringu að Dingley „hafi einfaldlega horfið“. Hann segir að Dingley hafi verið að fara eftir skýrri leið, veðrið hafi verið gott, símasambandið sömuleiðis og Dingley vel búin; hún hafði með í för allt sem hún þurfti til að halda sér hlýrri og þurri í vondu veðri. 

„Þó að Esther hafi verið á fjöllum var hún ekki að eiga við tind Himalaya-fjalla. Hún var einfaldlega að labba eftir stígum sem börn ganga eftir á sumrin með foreldrum sínum og hún var nálægt vegum sem gott aðgengi er að,“ segir Colegate. Eftir fjölmargar gönguferðir sínar um svæðið í leit að konu sinni fái hann ekki séð hvernig Dingley hafi geta horfið. Einu staðirnir á svæðinu sem hafi ekki verið kembdir eru stöðuvötn sem eru þó alla jafna kristaltær og grunn. 

Átti auðvelt með að tala við ókunnuga 

Colegate segir að mat lögregluyfirvalda á Spáni og í Frakklandi sé einfaldlega að slys hafi orðið, jafnvel þó að ekki sé hægt að útskýra það nánar. Lögregla hafi útilokað mannrán fljótlega eftir að Dingley hvarf.Colegate segist ekki sammála lögreglu og telur á þessum tímapunkti að líklegra sé að hvarf Dingley hafi borið að með saknæmum hætti;

Esther Dingley.
Esther Dingley. Ljósmynd/Dan Colegate/LBT Global

„Leitin hefur staðið yfir svo lengi og verið svo ítarleg, að hvað mig varðar hef ég áhyggjur af því að líkurnar á slysi séu nú minni en á saknæmum atburði. Esther var ein, aðlaðandi ung kona, sjálfsörugg og upplifði sig örugga og hún átti auðvelt með að tala við ókunnuga og hefja samræður. Öll hennar reynsla af fjöllum hafði kennt henni að hún gæti treyst fólki, að það myndi bjóða fram aðstoð ef þyrfti,“ segir Colegate. 

Colegate segist meðvitaður um að hann geti ekki afsannað þá kenningu lögreglu að Dingley sé einhversstaðar í fjallgarðinum. Svæðið sé þó ekki flókið yfirferðar og að mögulegt sé að finna nál í heystakki, ef maður leggur það á sig að skoða hvert strá. 

„Fjölskylda hennar og ég vitum að líkurnar á að sjá Esther aftur eru afar litlar núna. En það eru engin sönnunargögn sem benda til neins á þessu stigi, og það eru enn örlitlar líkur á, að einhversstaðar sé henni haldið á lífi,“ segir Colegate.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert