Kona sem bjargaði barni sínu fannst látin

Björgunarfólk flutti fólk af svæðinu í gær.
Björgunarfólk flutti fólk af svæðinu í gær. AFP

Kona sem kastaði dóttur sinni frá sér til að bjarga henni frá aurskriðu og flóðum sem lentu á heimili þeirra augnablikum síðar fannst látin í gær. 

Stúlkubarninu var bjargað á miðvikudag eftir að hafa verið í meira en sólarhring undir rústum. Frá þessu greinir BBC

Mikil flóð eru nú í Zhengzhou í Kína, en 33 eru látnir og fleiri en 200 þúsund hafa þurft að flýja heimili sín. Óvenju mikil rigning hefur verið á svæðinu.

Myndband af björgunarfólki að bjarga litla barninu hefur vakið mikla athygli í Kína. Það er líklega þriggja eða fjögurra mánaða gamalt.

Kastaði henni á stað sem lá hærra

„Ég heyrði rödd barnsins og þá kom björgunarfólkið á vettvang og gátu bjargað því. Mamma hennar hafði kastað henni á stað sem lá hærra,“ sagði fjölskyldumeðlimur mæðgnanna við fjölmiðla.

Barnið var fært á spítala en reyndist ekki slasað.

Lík móður barnsins fannst í gær og sagði björgunarfólk hana hafa verið í stellingu sem benti til þess að hún hafi verið að lyfta einhverju upp. „Á einmitt þessu augnabliki var hún að lyfta upp barninu sínu, og þess vegna lifði barnið af,“ sagði einn björgunarmaður við fjölmiðla.

Rigning og flóð hafa valdið ófremdarástandi í héraðinu undanfarna viku. Stórir vegir hafa orðið að ám og bílar, brak og jafnvel fólk flýtur meðfram ánni. Fleiri en 90 milljónir manna búa á svæðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert