Hróarskelduhátíðinni aflýst

Hróarskelduhátíðin í Danmörku dregur jafnan að sér tugþúsundir gesta og …
Hróarskelduhátíðin í Danmörku dregur jafnan að sér tugþúsundir gesta og er fjölmennasta tónlistarhátíð Norður-Evrópu. Sækir hana að jafnaði fjöldi tónleika- og skemmtanaþyrstra Íslendinga ár hvert. Ekkert verður af hátíðinni árið 2021, annað árið í röð, og harma aðstandendur messufallið í fréttatilkynningu. Myndin er frá hátíðinni sumarið 2006. Ljósmynd/John Mcconnico

Hróarskelduhátíðinni dönsku, stærstu tónlistarhátíð Norður-Evrópu, hefur verið aflýst annað árið í röð. Þetta tilkynntu aðstandendur hátíðarinnar í fréttatilkynningu í morgun og kveðast þar miður sín yfir að þurfa að aflýsa hátíðinni á nýjan leik, þvert ofan í þá von að nú næðist að halda hana eftir messufall sumarsins 2020.

„Bannið við stórum samkomum í sumar nær einnig til Hróarskelduhátíðarinnar. Þess vegna neyðumst við til að fresta hátíðinni til 2022,“ segir í tilkynningunni, „því miður kemur þetta okkur ekki algjörlega á óvart en okkur þykir það ákaflega sorglegt. Okkur er mjög þyngt yfir að fá ekki að koma saman á ný og leggja okkar lóð á vogarskál þess að endurskapa þær samverustundir sem kórónuveiran hefur eyðilagt fyrir æsku landsins,“ er haft eftir Signe Lodrup, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, í tilkynningunni.

Léttir að vita af aðstoð

Kveður Lodrup niðurfellingu Hróarskelduhátíðarinnar í ár enn fremur reiðarslag fyrir menningarlíf Danmerkur yfir höfuð. Þegar hátíðinni var aflýst í fyrra hafi aðstandendur hennar talið útilokað að sú staða gæti komið upp að ekki yrði heldur unnt að bjóða listamönnum og gestum til hátíðarinnar í ár, en sú dapra staðreynd liggi nú fyrir.

Hróarskelduhátíðin hóf göngu sína árið 1971 og er því 50 …
Hróarskelduhátíðin hóf göngu sína árið 1971 og er því 50 ára í ár sem ekki dregur úr harminum yfir messufalli annað árið í röð. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bill Ebbesen

„Minnst hálft annað ár tekur að skipuleggja hverja hátíð og jafnvel þótt við höfum farið ákaflega varlega í sakirnar við skipulagninguna krefst hún útgjalda og fjárhagslegra skuldbindinga gagnvart ýmsum aðilum sem efna þarf. Það er okkur því léttir að vita til þess að okkur stendur til boða aðstoð til að koma okkur gegnum annað tímabil sem hátíðin er ekki haldin,“ er enn fremur haft eftir Lodrup í tilkynningunni.

Fleiri hátíðir gera hlé í ár

Árið 2019 sóttu 130.000 gestir þessa vinsælu dönsku útihátíð heim sem dregið hefur til sín fjölda íslenskra gesta um áratuga skeið, en Hróarskelduhátíðin var fyrst haldin árið 1971 og er því 50 ára í ár sem varla dregur úr vonbrigðunum yfir að ekkert verði af henni nú. Þeim sem þegar hafa keypt miða á hátíðina í ár býðst að geyma þá og láta þá gilda fyrir hátíðina að ári, eða fá endurgreitt bjóði þeim svo við að horfa.

Þá hafa fleiri danskar tónlistarhátíðir boðað messufall í sumar vegna kórónuveirufaraldursins, svo sem Jelling, Northside og Thy Rock.

BT

DR

Tilkynning á heimasíðu hátíðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert