Eldra fólk bólusett með AstraZeneca

AFP

Ríkisstjórn Frakklands hefur veitt heimild fyrir því að fólk með undirliggjandi sjúkdóma og fólk á aldrinum 65-74 ára verði bólusett með bóluefni AstraZeneca. Þetta var ákveðið í kjölfar þess að birtar voru niðurstöður rannsóknar á virkni bóluefnisins á eldra fólk í gær. Frakkar, líkt og Þjóðverjar, Íslendingar og fleiri lönd, ákváðu að bíða eftir því að niðurstaða rannsókna lægi fyrir áður en farið var að bjóða eldra fólki upp á bólusetningar með bóluefni AstraZeneca.  

Bóluefni Oxford-AstraZeneca er mikið notað í Bretlandi og Lyfjastofnun Evrópu veitti heimild til þess að nota það fyrir alla fullorðna þegar markaðsleyfið var gefið út fyrr á árinu. Það er aftur á móti í höndum einstakra ríkja að taka ákvörðun um hverjir fá hvaða bóluefni. 

Heilbrigðisráðherra Frakklands, Olivier Véran, greindi frá þessu í viðtali á frönsku sjónvarpsstöðinni France 2 í gærkvöldi. Þeim sem eru 75 ára og eldri verður áfram boðið upp á bólusetningar með bóluefnum framleiddum af Pfizer eða Moderna og fara þær bólusetningar fram í sérstökum bólusetningarmiðstöðvum. Aftur á móti geta aðrir nálgast bóluefnið í lyfjaverslunum og fengið hjúkrunarfræðinga eða lækna til að bólusetja sig.

Frétt le Parisien

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, sagði í janúar að bóluefni AstraZeneca væri nánast óvirkt fyrir eldra fólk (quasi-ineffective) og hefur þessu orðalagi forsetans verið andmælt af yfirvöldum í Bretlandi og vísindamönnum. Eftir því sem fleiri og betri upplýsingar hafa komið fram um bóluefnið hafa frönsk heilbrigðisyfirvöld reynt að sannfæra fólk um að þetta bóluefni sé alveg jafn öruggt og virkni þess sambærileg við önnur bóluefni.

Líkt og greint var frá í gær er aðeins búið að nota 273 þúsund skammta af AstraZeneca-bóluefninu í Frakklandi en þegar eru fyrirliggjandi 1,7 milljónir skammta þar í landi. Um þrjár milljónir Frakka hafa þegar fengið að minnsta kosti fyrri skammtinn af bóluefni en í Bretlandi er fjöldinn mun hærri eða 20 milljónir. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert